Körfubolti

Pétur: Á ég núna að vera stressaður útaf fjórum töpum?

Guðlaugur Valgeirsson í Schenker-höllinni skrifar
Pétur er þjálfari Blika.
Pétur er þjálfari Blika. vísir/skjáskot
Þjálfari Breiðabliks í Dominos-deild karla, Pétur Ingvarsson var svekktur í leikslok eftir tap liðsins gegn Haukum, 96-92 í hörkuleik á Ásvöllum í kvöld.

 

„Í þetta sinn og flest skipti erum við búnir að vera nálægt sigri en það voru helst þessar tvær lokasóknir þar sem þetta kláraðist. Þeir eru með reynsluna en ekki við.”

 

Blikarnir byrjuðu mjög vel og hittu vel í fyrri hálfleik en síðan duttu þeir niður í þeim síðari. Pétur sagði það svo sem skiljanlegt.

 

„Ég held að eðlileg hittni hafi bara verið óvenju góð og síðan eðlileg hittni þegar við vorum bara að setja 1 af hverjum 10.”

 

Pétur hefur engar áhyggjur af framhaldinu og er ekki að stressa sig á því þó að lið hans sé að missa leikina frá sér síðustu mínúturnar í fyrstu leikjunum.

 

„Í byrjun tímabils var talað um að við ættum að tapa öllum leikjunum. Á ég þá núna að fara verða stressaður útaf fjórum töpum sem voru tæp?"

„Við erum með ungt lið og við erum að læra og því oftar sem okkur mistekst í svona aðstæðum þá kannski tekst það einn daginn að klára svona leik.”

 

„Auðvitað er ég bjartsýnn á framhaldið, við erum búnir að tapa fjórum leikjum, þrír á útivelli og einn heimaleikur á móti einu sterkasta liðinu, Stjörnunni. Þannig að þetta er ekkert óeðlileg niðurstaða miðað við forsendur fyrir tímabilið,” sagði Pétur Ingvarsson í lokin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×