Kynningar

Íbúar átakasvæða hafa ekki ráð á mat

Heimsljós kynnir

Samkvæmt glænýjum rannsóknum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem birt er í tilefni Alþjóðlega matvæladagsins í dag, 16. október, dregur sífellt úr líkunum á því að íbúar á átakasvæðum hafi efni á næringarríkum máltíðum. Sama gildir um heimshluta þar sem ríkir pólitískur óstöðuleiki. Í fjölmörgum öðrum löndum leiðir hátt matvælaverð til þess að milljónir íbúa hafa ekki fjárráð til kaupa á hollri og næringarríkri fæðu.

WFP gefur í dag út öðru sinni svokallaða „Baunavísitölu“ um verð á einni máltíð í þróunarríkjum. Markmiðið er að draga upp fyrir neytendur í tekjuháum og iðnvæddum löndum mynd af því hversu stóran hluti daglauna þarf til þess að tryggja eina undirstöðumáltíð í fátækari ríkjum heims.

Tekið er dæmi af fólki í New York sem myndi matbúa slíkan einfaldan rétt til að seðja magann og tryggja þriðjung af kaloríuþörf dagsins. Það gæti verið súpa, einfaldur plokkfiskur, nokkrar baunir eða linsubaunir, handfylli af hrísgrjónum eða brauði og maís, smávegis af tómatsósu. Slíkur réttur myndi kosta sáralítið fyrir íbúa bandarískrar stórborgar, eða 0,6% af daglaunum, um 150 krónur íslenskar, meðan slík máltíð gæti í sumum þróunarríkjum verið fjarstæðukenndur munaður, þrjú hundruð sinnum dýrari fyrir íbúa Suður-Súdan, fengist þar fyrir 45000 krónur. -Og hvernig hafa þá íbúar Suður-Súdan efni á slíkri máltíð?, spyr Matvælaáætlun SÞ. Svarið er: Þeir hafa ekki efni á henni.

„Og það er þess vegna,“ segir WFP, „sem við og önnur mannúðarsamtök, erum þar. Á hverjum degi, í Suður-Súdan og mörgum öðrum löndum, höldum við lífi í fólki. Við ættum ekki að vera þar því hungur er siðferðislegt hneyksli og mannréttindabrot,“ segir í frétt frá Matvælaáætlun SÞ sem upplýsir jafnframt um tölu þeirra sem búa við sult: 821 milljón.

Í dag á Alþjóða matvæladaginn er kastljósinu beint að öðru Heimsmarkmiðinu: Ekkert hungur. Í ávarpi frá Antóníó Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í tilefni dagsins segir hann að flestir þeirra sem líða hungur séu konur. Síðan segir hann: „Um 155 milljónir barna þjást af langvinnri vannæringu og vaxtarhömlun mun marka þau fyrir lífstíð. Og hungur er orsök nærri helmings ungbarnadauða í heiminum. Þetta er óþolandi.“

Matvælaáætlun SÞ (WFP) er ein mikilvægasta samstarfsstofnun utanríkisráðuneytisins í mannúðarmálum. Stofnunin sinnir neyðaraðstoð við flóttafólk og aðra sem eru í nauðum staddir, t.d. af völdum náttúruhamfara eða átaka. Helstu markmið WFP er að bjarga mannslífum og lina þjáningar, koma í veg fyrir hörmungar og vinna að endurreisn eftir að þær hafa dunið yfir, draga úr langvinnu hungri og vannæringu.

Food costs should cause 'shock and outrage' as countries in conflict see spiralling prices/ WFP

Minna (salt) kjöt, meiri baunir/ UNRIC


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.
 
 

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.