Skoðun

Réttur til þjónustu

Teitur Guðmundsson skrifar
Þeir sem eru í þeirri stöðu að þurfa að afplána dóma í fangelsi hafa með mismunandi hætti brotið lög og með þessu úrræði er þeim gert að taka út refsingu og markvisst skal stefnt að betrun. Það er ekki óskynsamleg nálgun, en útfærslan hefur gengið misvel og oft koma upp vandamál sem getur reynst erfitt að leysa við þessar kringumstæður.

Þekkt er að ýmsum ráðum er beitt komi til hegðunarvanda eða átaka innan veggja fangelsa bæði hérlendis sem erlendis og fyrir agabrot er hópnum oftsinnis refsað auk einstaklingsins sjálfs. Réttindi geta verið dregin til baka, líkt og heimsóknir fjölskyldu og aðgangur að afþreyingu, og í sumum tilvikum er einangrun beitt. Það er augljóst að fangar eiga það sameiginlegt að hafa ekki fulla stjórn á kringumstæðum sínum með sama hætti og þeir sem ganga frjálsir og er það hluti þeirrar frelsissviptingar sem þeir eru dæmdir til.

Á sama hátt er augljóst að ekki eru allir fangar eins, né sitja þeir inni fyrir sömu afbrot. Mikill munur getur verið á félagslegum tengslum þeirra, stöðu innan sem utan veggja fangelsis, fjölskylduaðstæðum, menntun og starfsreynslu sem og heilbrigði þeirra hvort heldur er líkamlegu eða andlegu. Að vera aðskilinn frá fjölskyldu og vinum reynist vafalítið erfitt og fyrir þá sem glíma við fíkni og/eða geðsjúkdóma má segja að ástandið sé brothætt svo vægt sé til orða tekið.

Umræða um geðheilbrigðisþjónustu við fanga hefur verið fyrirferðarmikil og er ekki enn búið að leysa þann vanda þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um að ekki skuli mismuna einstaklingum og fangar eigi rétt til slíkrar aðstoðar. Tíðni sjálfsvíga er há innan veggja fangelsa um allan heim og versnun á líðan einstaklinga sem glíma við geðsjúkdóma er öllum ljós. Umboðsmaður Alþingis lýsti því viðhorfi að vistun geðsjúkra manna í fangelsi kynni að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu og að fangar ættu rétt á að njóta þeirrar umönnunar sem þeir þurfa samkvæmt stjórnarskrá og lögum. Fangelsismálastjóri og Ríkisendurskoðun ásamt fleirum hafa kallað eftir því að stjórnmálamenn og þá aðallega ráðherrar standi í lappirnar með fjárveitingar og skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veita skuli í fangelsum hérlendis, en þeirri vinnu er ekki lokið. Þó hefur verið ýtt á eftir því reglulega síðan árið 2010 hið minnsta.

Fíknivandi blandast sérstaklega saman við önnur undirliggjandi vandamál og getur verið erfitt að eiga við hann nema með stuðningi fagfólks. Fíknin flækir ferli geðsjúkdóma og vandans almennt svo það er ekki hægt að leggja nægjanlega áherslu á það að þverfagleg teymi starfi innan veggja fangelsanna. Refsingin getur ekki falist í því að sjúkdómsástand versni til muna og leiði jafnvel til dauða. Betrunarferli fanga er mikilvægt og að þeir hafi tækifæri til að snúa af þeirri braut sem leiddi til vistunar. Heilsa og heilbrigði eru lykilatriði þar, menntun og endurmenntun skipta miklu sem og félagslegt tengslanet þeirra sem um ræðir. Við þurfum því að vera vakandi fyrir öllum þessum þáttum og tryggja að við gefumst ekki upp við mjög svo erfitt og krefjandi verkefni sem þjónusta og umönnun við fanga er.

Ráðherrar, það er kominn tími til að kippa þessu í liðinn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×