Viðskipti innlent

Jónatan segir skilið við Hópferðabíla Jónatans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jónatan Þórisson við eina af rútum fyrirtækisins.
Jónatan Þórisson við eina af rútum fyrirtækisins. Aðsend

Eftir að hafa staðið vaktina í næstum 60 ár hefur Jónatan Þórisson ákveðið að setjast í helgan stein. Þrátt fyrir að búið sé að selja Hópferðabíla Jónatans ehf. ætti vegfarendum ekki að láta sér bregða ef þeir sjá rútur fyrirtækisins á vegum úti. Nýir eigendur hafa í hyggju að aka fjórum rútum áfram undir merkjum Hópferðabíla Jónatans, enda landsþekkt vörumerki eftir áratuga akstur á þjóðvegum landsins.

Í samtali við Vísi segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins og tengdasonur Jónatans Þórissonar, að þeir hafi metið það sem svo að nú væri rétti tíminn til að selja fyrirtækið. Jónatan hafi ákveðið að fara á eftirlaun, enda kominn á níræðisaldur.

Kaupandinn er mosfellska verktakafyrirtækið Fagverk og hyggst það gera áfram út fjórar rútur Jónatans. Rúturnar í eigu fyrirtækisins voru alls 10 talsins, búið er að selja þrjár þeirra og segir Kristján að viðræður standi yfir varðandi framtíð hinna þriggja.

Fagverk hefur ekki áður sinnt fólksflutningum en hyggst nú færa út kvíarnar. Til þess að auðvelda fyrirtækinu að fóta sig á nýjum vettvangi mun Kristján starfa hjá Fagverki til áramóta. „Síðan verðum við bara að sjá hvernig það þróast,“ segir Kristján. „Maður þarf auðvitað að koma nýjum eiganda inn í viðskiptasambönd og annað slíkt - og hvernig þetta gengur fyrir sig,“ útskýrir Kristján og bætir við að það sé því ekki útséð með það hvort hann verði áfram hjá Fagverki eitthvað lengur.

Fyrirtækið mun aka rútunum fjórum undir merkjum Jónatans, þrátt fyrir að Jónatan sé ekki lengur í brúnni. „Þetta er í rauninni alveg verðmætt vörumerki,“ segir Kristján, enda hafi það verið í rekstri frá árinu 1964. Eitt elsta rútufyrirtæki landsins stendur því óneitanlega á tímamótum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HEIMA
5,98
19
1.491.650
VIS
2,8
19
263.441
SIMINN
0,75
15
428.677
SJOVA
0,51
21
360.465
EIK
0,38
12
157.342

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MAREL
-4,01
41
1.008.965
LEQ
-2,43
3
69.322
ICEAIR
-2,41
12
36.382
TM
-1,96
11
203.211
KVIKA
-1,94
7
168.078
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.