Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið samþykkir samruna Haga og Olís með skilyrðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hagar undirrituðu kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olís í apríl á síðasta ári.
Hagar undirrituðu kaupsamning um kaup á öllu hlutafé Olís í apríl á síðasta ári. Fréttablaðið/Anton Brink
Samkeppniseftirlitið og Hagar hafa undirritað sátt um skilyrði fyrir kaupum Haga á Olíuverslun Íslands hf. og fasteignafélaginu DGV ehf.

Kaupsamningur vegna kaupa Haga, sem á og rekur meðal annars verslanir Hagkaupa og Bónuss, á öllu hlutafé Olís og fasteignafélagsins DGV var undirritaður í apríl á síðasta ári.

Samkeppniseftirlitið tók kaupin til skoðunar en á ýmsu gekk við skoðun eftirlitsins á kaupunum. Eftirlitið samþykkti ekki kaupin án skilyrða og gengið var til sáttaviðræðna.

Í vor var samrunatilkynningin hins vegar afturkölluð rétt áður en ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins var að vænta. Var ný tilkynning send inn og birti Samkeppniseftirlitið þær tillögur sem Hagar töldu að myndu eyða samkeppnishindrunum og liðka fyrir kaupunum.

Meðal þeirra skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setur fyrir samrunanum er að samrunaaðilar skuldbindi sig til að bjóða sama verð á dagvöru á Olís stöðvum um land allt, rekstur Bónusverslana í Faxafeni og Hallveigarstíg verði seldur auk rekstur og fasteignir Olís þjónustustöðvanna við Háaleitisbraut 12 og Vallargrund 3.

Þá skuldbinda samrunaaðilar sig til að selja rekstur Olís verslunarinnar í Stykkishólmi. Samrunaaðilar skuldbinda sig jafn framt til að selja rekstur og aðstöðu ÓB stöðvar við Starengi 2, Kirkjustétt 2-5 og Knarrarvog 2 í Reykjavík.

Í tilkynningu segir að samkvæmt sáttinni sé Högum óheimilt að framkvæma samrunann fyrr en sölu fyrrgreindra eigna er lokið. Hagar hafi nú þegar undirritað kaupsamninga um allar framangreindar eignir. Samruninn komi þó ekki til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hafi metið hæfi kaupenda eignanna.

Nánar má lesa um kaupin hér.


Tengdar fréttir

Fallast ekki á tillögur Haga

Samkeppniseftirlitið fellst ekki á þær tillögur sem Hagar lögðu fram til að liðka fyrir samruna samsteypunnar við Olíuverzlun Íslands og DGV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×