Skoðun

Ekki loka Krýsuvík

Steinunn Baldursdóttir skrifar
Allt stefnir í að meðferðarheimilinu í Krýsuvík verði lokað í haust. Fjöldi einstaklinga hefur eignast nýtt líf eftir dvölina þar og er undirrituð þar á meðal. Satt að segja er árangurinn af meðferðarstarfinu í Krýsuvík betri en margir vita. Samkvæmt úttekt landlæknis voru rúmlega 64% þeirra sem útskrifuðust án vímuefna í eitt ár eða lengur eftir að meðferð lauk. Rúmlega 31% þeirra var án vímuefna þremur árum eftir að meðferð lauk. Það er ekki lítið miðað við hversu langt leiddir margir skjólstæðingar Krýsuvíkur eru við komuna þangað. Oft eru skjólstæðingar Krýsuvíkur fólk sem aðrar stofnanir hafa ekki náð árangri með.

En hvers vegna á þá að loka Krýsuvík? Er virkilega engin þörf á þessu einstaka meðferðarúrræði? Gerðar voru ákveðnar athugasemdir um starfsemina fyrr á árinu sem stjórnendur vinna í því að bæta. Það er því engin þörf á því að loka heimilinu vegna þeirra og gera að engu það góða starf sem unnið er í þágu skjólstæðinga þess.

Geðdeild Landspítalans lokaði í 6 vikur í sumar og SÁÁ þurfti að takmarka starfsemi sína. Hlaðgerðarkot var þá eina langtíma úrræðið sem stóð til boða. Sjaldan hafa biðlistarnir verið jafn langir og fólk deyr á meðan það býður eftir úrræði. Er þetta aðferðin sem stjórnvöld ætla að nota til að vinna á lyfjafaraldrinum? Með því að loka einu af fjórum meðferðarúrræðum? Því fylgir mikil ábyrgð.

Þörfin fyrir meðferðarúrræði er gríðarlega mikil. Það er þyngra en tárum taki að fjöldi ungmenna hefur dáið undanfarna mánuði af ofneyslu ópíóða. Langtímameðferð eins og framkvæmd er í Krýsuvík virkar best fyrir langt leidda fíkla. Þar er unnið markvisst meðferðarstarf sem hefur sýnt sig að virkar, með áherslu á 12 spora leiðina, meðal annars í samstarfi við Drekaslóð, fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldi og vímuefna.

Ekki loka Krýsuvík. Við sem eignuðumst þar nýtt líf viljum sjá að fleiri hafi tækifæri á slíku.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×