Skoðun

Minnisvarði eða ljósmyndastúdíó?

Hulda Vigdísardóttir skrifar
Í vor ákvað ég að slá sumarfríi mínu á frest. Tilhugsun um íslensk sumarkvöld og bjarta vinnudaga freistaði sem og auðvitað að eiga inni frí og fara til einhverrar sólríkrar eyju í haust. Þannig hugsaði ég mér að geta framlengt sumarið en sennilega seinkaði ég því bara; tja eða sneri röð árstíðanna við. Eftir sannkallað íslenskt haustveður í júní, júlí og ágúst, er ég nú komin í hitabylgju á Kýpur. Já, úr 6°C í Reykjavík í 36°C í Pafos. Ég flaug þó ekki beint hingað, heldur varði fáeinum dögum á leiðinni í Berlín, einni uppáhaldsborginni minni.Ég vissi að ég hefði nægan tíma til að slappa af á Kýpur og setti mig því í túristagírinn í Berlín; skipti yfir í sandala, setti á mig mittisveski og skellti derhúfunni á kollinn; já, eða þannig. Mig langaði að skoða eitthvað sem ég hafði ekki séð áður og mundi eftir að hafa rekist á fjölmargar flottar myndir á Instagram frá stað sem virtist býsna áhugaverður. Ég fór því að leita á Netinu og komst að því að þær voru teknar rétt hjá Brandenborgarhliðinu, á afar stóru svæði sem státar af 2711 tilkomumiklum steinsteypublokkum. Forvitni mín var vakin og ég las mér nánar til um staðinn sem reyndist vera eitt fjölsóttasta minnismerki borgarinnar. Vissulega hafði ég heyrt talað um minnisvarðann en einhvern veginn aldrei tengt Instagram-myndirnar við hann. Þær sýndu hamingjusama ferðalanga spóka sig um nýstárlegt svæði og minntu síður en svo á einn ljótasta glæp Evrópu. Ég hef alltaf haft áhuga af sögu og ákvað að skoða þennan fræga og margmyndaða minnisvarða en hann er helgaður þeim óramörgu gyðingum í Evrópu sem myrtir voru í helförinni þegar seinni heimstyrjöldin geisaði. Árlega heimsækir um hálf milljón ferðamanna minningarreitinn og því kannski engin furða að til séu ótal margar myndir þaðan. Á Instagram prýðir minnismerkið hundruð þúsunda mynda en flestar þeirra eiga þó sameiginlegt að sýna minnisvarðann einungis sem flotta byggingarlist og yfirleitt er hann aðeins hafður í bakgrunn. Þessar myndir vekja allt önnur hughrif en sá hryllingur sem heltekur hugann þegar hugsað er til helfararinnar, enda eiga brosmildir ferðamenn, lífstílsbloggarar, tískufyrirmyndir og áhrifavaldar nútímans fátt sameiginlegt með skipulagðri útrýmingu gyðinga í heimstyrjöldinni síðari.Nú tek ég sjálf mikið af myndum og er ansi virk á Instagram en eftir að hafa lesið mér til um staðinn, fannst mér margar glansmyndanna sem ég hafði séð þaðan  á samfélagsmiðlum heldur óviðeigandi; flottar, jú og margar hverjar mjög eftirminnilegar en óviðeigandi engu að síður. Það er nóg af öðrum stöðum í Berlín (og heiminum öllum) til þess að taka smart sjálfsmyndir án þess að stilla sér upp við minningarstein saklauss fórnarlambs. Kannski er ég skrýtin en mér finnst  það alla vega ekki svo ýkja frábrugðið því að fara í Fossvogskirkjugarð og taka þar nýja forsíðumynd fyrir Facebook.Minningarreiturinn í Berlín er mjög tilkomumikill og býður óneitanlega upp á mörg skemmtileg og myndræn sjónarhorn en þegar ég rölti um svæðið fannst mér sem megintilgangur margra með heimsókn sinni væri að ná góðri mynd; ekki að upplifa og skoða einstakan minnisvarða eða fræðast um sögu Evrópu, heldur einungis að taka flotta mynd til að deila á Netinu. Ég veit ekki hve margar myndir ég tróð mér óvart inn á með því að ganga fram hjá á vitlausum tíma en þar sem hæstu bautasteinarnir eru yfir 4 metrar (sá hæsti 4,5 m) hverfur fólk á milli þeirra; inn í listaverkið. Þegar litið er yfir svæðið má sjá sjálfustangir (eða kjánaprik, eins og vinkona mín kýs að kalla slíkar stangir) skjóta upp kollinum hér og þar, líkt og illgresi sem er jafnóðum rifið í burtu.Á undanförnum árum hefur uppgangur samfélagsmiðla verið ótrúlega hraður og um leið virðast þeir sífellt hafa meira vægi. Það að skrá sig í samband á Facebook jafngildir t.d. næstum trúlofun, utanlandsferðir eru til einskis ef ekki næst góð Instagram-mynd og á veitingarstöðum má enginn byrja á matnum fyrr en allir hafa náð góðu snappi. Kannski er þetta fullsterkt til orða tekið en þó er stundum eins og það sem ekki ratar á Facebook eða aðra miðla, hafi ekki átt sér stað í raun og veru; tja, eða a.m.k. ekki fyrir óviðstadda. Margir eru háðir því að setja eitthvað inn á samfélagsmiðla og álit annarra virðist oft skipta alltof miklu máli. Heimur glansmyndanna er býsna stór og getur ýtt undir samanburð og forvitni í garð annarra.Samfélasmiðlar hafa þó ótal kosti líka og á vissan hátt er það þeim að þakka að ég uppgötvaði þennan flotta minnisvarða í Berlín. Ég ákvað nú samt að sýna hinum látnum þá virðingu að birta ekki glaðlega Instagram-mynd af mér þaðan en mæli þó eindregið með heimsókn þangað. Það er býsna áhrifaríkt að ganga um þessa 2711 misháu bautasteina sem mynda eins konar völundarhús á nítján þúsund fermetra svæði; allt önnur upplifun en myndirnar á Instagram, því get ég lofað.Höfundur er M.A. í íslenskri málfræði.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.