Körfubolti

Undirbjó sig fyrir tímabilið með Njarðvík með því að spila á móti James Harden

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeb Ivey og James Harden.
Jeb Ivey og James Harden. Mynd/Fésbókin/Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur

Það er ekki slæmt að undirbúa sig fyrir Domino´s deildina í körfubolta 2018-19 með því að spila á móti besti leikmanni NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Bandaríkjamaðurinn Jeb Ivey mun spila með Njarðvík í Domino´s deild karla í körfubolta í vetur en hann snýr aftur í Ljónagryfjuna eftir meira en ellefu ára fjarveru.

Ivey ætlar að mæta til Íslands í flottu formi og hefur verið að undirbúa sig í Bandaríkjunum. Ivey er orðinn 37 ára gamall en er hvergi nærri hættur.

Njarðvíkingar vöktu athygli á því á fésbókarsíðu sinni að bakvörðurinn þeirra hafi verið að spila á móti sjálfum James Harden á dögunum.James Harden var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð en var þá með 30,4 stig og 8,8 stoðsendingar að meðaltali í leik hjá liði sem vann 65 leiki í deildarkeppninni.

„Okkar maður Jeb Ivey hefur verið duglegur seinustu vikur að æfa sig fyrir komandi átök í Dominosdeildinni en á dögunum átti hann hörku æfingu á móti MVP NBA deildarinar á síðustu leiktíð James Harden þar sem þeir félagar spiluðu á hvorn annan og að sjálfsögðu hafði okkar maður betur í því einvígi,“ segir meðal annars í færslunni hjá Njarðvíkingum.

Jeb Ivey spilaði tvö tímabil með Njarðvíkingum, 2005-06 og 2006-07. Liðið varð Íslandsmeistari fyrra tímabilið og komst líka í úrslitaeinvígið árið eftir en tapaði þá á móti KR.

Ivey kom líka til Snæfells í miðjum lokaúrslitum 2010 og hjálpaði liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Hvorki Njarðvík né Snæfell hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn síðan að Ivey fór.

Ivey fór frá Njarðvík til Þýskalands og hefur einnig spilað í Finnlandi og Frakklandi. Hann varð tvisvar sinnum finnskur meistari með Nilan Bisons Loimaa (2011–12 og 2012–13) en það eru í einu tvö skiptin sem félagið hefur unnið finnska titilinn. Sannur sigurvegari hér á ferðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.