Gagnrýni

Tveir turnar í Hörpu – hver stjórnaði?

Jónas Sen skrifar
Flottur flutningur, en sýningartjaldið var óþægilega hátt uppi sem gerði sjónræna upplifun erfiða. Upplýsingar um flytjendur hefðu mátt vera ítarlegri.
Flottur flutningur, en sýningartjaldið var óþægilega hátt uppi sem gerði sjónræna upplifun erfiða. Upplýsingar um flytjendur hefðu mátt vera ítarlegri.
Í annarri myndinni í Hringadróttinssögu á Frodo virkilega bágt. Hann ber máttarhringinn í keðju um hálsinn. Hringurinn verður þyngri og þyngri eftir því sem þeir Sam nálgast Mordor. Það reynir á hálsvöðvana. Mér leið líka illa í hálsinum á myndinni, sem sýnd var við lifandi tónlistarflutning í Eldborginni í Hörpu á sunnudagskvöldið. Ég bar þó ekki máttarhring í keðju, heldur sat ég mjög framarlega í Eldborginni, á ellefta bekk. Sýningartjaldið var svo hátt uppi fyrir ofan sviðið að maður var kominn með hálsríg eftir korter. Og myndin tekur þrjá tíma, takk fyrir.

Ekki bætti að hljóðfæraleikararnir á sviðinu voru með lesljós. Þessi ljós voru afar skær og voru í beinni sjónlínu. Þau skáru óneitanlega í augun og drógu töluvert úr hinni sjónrænu upplifun.

En hvaða hljóðfæraleikarar? Þarna var líka stór kór og barnakór. Hvaða kórar voru það? Og hver var hljómsveitarstjórinn? Það var ekki á hreinu. Engin tónleikaskrá var til að glöggva sig á, og í textanum sem birtur var á heimasíðu Hörpu var ekki orð um flytjendur. Emilíana Torrini var þar ein á blaði, en samt var hún í pínulitlu hlutverki, söng bara Gollum’s Song þegar kreditlistinn rúllaði yfir tjaldið í lok myndarinnar. Það er örstutt lag. Á heimasíðu Hörpu var sagt að hún hefði samið það. Eftir því sem næst verður komist er það ekki rétt, a.m.k. er hún aðeins titlaður flytjandi í kreditlista myndarinnar.

Í uppklappinu birtist loksins á skjánum texti um flytjendur. Hann var í skötulíki. SinfóníaNord var nefnd, einnig Kór Söngsveitar Fílharmóníu og Barnakór Kársnesskóla. Þarna voru líka örfá önnur nöfn, en ekki orð um hvaða hlutverki fólkið gegndi. Og hvergi var nafn hljómsveitarstjórans.

Þetta verður að kallast klúður, því flytjendur, og ekki síst hljómsveitarstjórinn, sem hér verður framvegis kallaður „Einhver“, stóðu sig öll prýðilega. Þau áttu betra skilið.

„Einhver“ var frábær. Allar tímasetningar voru fullkomnar, bæði innkomur og takturinn. Hljómsveitin spilaði af miklu öryggi og það var gríðarleg stemning í leiknum. Kórarnir voru líka magnaðir. Söngurinn var þéttur og fókuseraður, og ágætlega samtaka.

Tónlistin, sem er eftir Howard Shore, er dásamleg. Í lok fyrstu myndarinnar tvístrast föruneyti hringsins í þrennt, og í næstu mynd er sagan þríþætt. Hver hluti hefur sína tónlist, en kaflarnir skarast aftur og aftur. Stefin eru ávallt grípandi, hljómarnir safaríkir; tónlistin er afar mikilvægur hluti myndarinnar. Á svona viðburði er hljóðblöndunin hins vegar öll vitlaus, talið á það til að drukkna. Það er hægt að fyrirgefa, músíkin er svo falleg að hún á skilið slíka framsetningu af og til. Þrátt fyrir skort á upplýsingum, og slæma staðsetningu sýningartjaldsins, var þetta því skemmtilegt kvöld. Það var ekki síst að þakka glæsilegri frammistöðu „Einhvers“ við stjórnvölinn, sem ég uppgötvaði á endanum eftir krókaleiðum að hét Shih-Hung Young. Jónas Sen

Niðurstaða: Flottur flutningur, en sýningartjaldið var óþægilega hátt uppi sem gerði sjónræna upplifun erfiða. Upplýsingar um flytjendur hefðu mátt vera ítarlegri.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×