Erlent

Flúði úr fangelsi í þyrlu

Sylvía Hall skrifar
Þyrlan fannst í norðurhluta Parísar.
Þyrlan fannst í norðurhluta Parísar. Vísir/EPA
Franski glæpaforinginn Redoine Faid flúði úr fangelsi nærri París í morgun eftir að þrír vopnaðir menn brutust inn í fangelsið og aðstoðuðu hann við flóttann. Mennirnir komust undan í þyrlu sem hafði verið lent á fangelsissvæðinu.

Þyrlan fannst skömmu síðar nærri Charles de Gaulle flugvellinum þar sem hún var yfirgefinn og höfðu mennirnir kveikt í henni.

Faid hafði verið dæmdur til 25 ára fangelsisvistar eftir misheppnað rán þar sem lögreglumaður var myrtur.

Árið 2009 skrifaði glæpaforinginn bók um uppvaxtarár sín og leiðina inn í glæpaheiminn og hafði lýst því yfir að hann hefði sagt skilið við glæpi. Ári seinna var hann handtekinn í tengslum við misheppnað rán.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Faid flýr á undraverðan hátt úr fangelsi, en árið 2013 var hann eftirlýstur af Interpol eftir að hafa sprengt sig út úr fangelsi með dínamíti og tekið fjóra fangaverði í gíslingu aðeins hálfum tíma eftir að hann var færður í fangelsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×