Skoðun

Leit að betra lífi

Davíð Þorláksson skrifar
Það er ömurlegt að horfa upp á hvernig börn innflytjenda í Bandaríkjunum eru tekin frá foreldrum sínum og jafnvel geymd í búrum.

Í flestum tilfellum er um heiðarlegt fólk að ræða sem er einfaldlega í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. Eina sem þau hafa til sakar unnið er að fæðast röngu megin við ímyndaða línu. Í stað meðalhófs og umburðarlyndis, er rekin stefna án umburðarlyndis.

Við getum vel tekið betur á móti innflytjendum og boðið fleiri kvótaflóttamönnum að koma hingað til lands. Eitt af því sem helst þarf að bæta varðandi móttöku innflytjenda er menntun barna þeirra.

Margt bendir til að þar sé pottur brotinn. Menntun er lykilþáttur í að nýir Íslendingar nái að aðlagast lífinu hér og skapa sér gott líf til framtíðar. Sveitarfélögin þurfa að girða sig í brók hvað þetta varðar.

Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkar að taka vel á móti innflytjendum heldur sýna rannsóknir að innflytjendur hafa góð áhrif á hagkerfi þróaðra ríkja. Þeir sinna störfum sem ella væru ef til vill ekki unnin og nota launin sín til að kaupa vörur og þjónustu. Þetta skapar hagvöxt í nýja heimalandinu.

Uppsveiflan sem við höfum séð hér síðustu árin hefði ekki verið svona mikil ef við hefðum ekki notið krafta erlends vinnuafls.

Í dag, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, er talið að um 2.300 börn innflytjenda séu í haldi stjórnvalda fjarri foreldrum sínum. Land frelsis og tækifæra hefur að mörgu leyti snúist upp í andhverfu sína.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.