Erlent

Ungverjar samþykkja lög sem gerir aðstoð við flóttafólk refsiverða

Atli Ísleifsson skrifar
Viktor Orbán hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010.
Viktor Orbán hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010. Vísir/AFP
Meirihluti ungverska þingsins samþykkti í morgun lög sem gerir aðstoð stofnana eða einstaklinga við flóttafólk og hælisleitendur í landinu refsiverða.

Í nýsamþykktum lögum er meðal annars að finna ákvæði um að einstaklingar eða fulltrúar frjálsra félagasamtaka sem aðstoða flóttafólk eða hælisleitendur við að fá dvalarleyfi, geti verið dæmdir í fangelsi.

Innanríkisráðherrann Sandor Pinter segir í yfirlýsingu að ungverska þjóðin reikni réttilega með því að ríkisvaldið beiti öllum sínum kröftum við að stöðva hinn ólöglega straum fólks til landsins, og alla þá starfsemi sem viðheldur honum.

Samþykkt var að leggja sérstakan skatt á allar stofnanir, sem ekki eru á vegum hins opinbera, og vinna að því að aðstoða flóttafólk. „Við viljum nýta þennan skatt til að vinna gegn skipulögðum innflutningi fólks,“ sagði í yfirlýsingu ungverska fjármálaráðuneytisins.

Forsætisráherrann Viktor Orbán hefur harðlega gagnrýnt innflytjendastefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara og hefur einn helsti talsmaður hóps Austur-Evrópuþjóða í baráttu þeirra gegn kvótum Evrópusambandsins, þar sem hælisleitendum hefur verið skipt á milli aðildarríkja sambandsins.

Talsmaður stjórnar Orbán segir ungversk stjórnvöld eiga von á að framkvæmdastjórn ESB komi til með að leita til dómstóla vegna hinna nýsamþykktu laga í Ungverjalandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×