Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Sigurður Ingi tekjuhæstur ráðherra

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Vísir/Ernir
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra er tekjuhæsti ráðherrann hér á landi samkvæmt lista Frjálsrar verslunar yfir tekjur forseta, Alþingismenn og ráðherra. Samkvæmt tekjublaðinu er Sigurður Ingi með 2,3 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári. Sá eini sem komst ofar á listann var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með 2,8 milljónir á mánuði.

Í þriðja sæti listans var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra með 2,2 milljónir í tekjur á mánuði. Fast á eftir honum kemur Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en samkvæmt tekjublaðinu voru tekjur hans tæpar 2,2 milljónir á mánuði. Í fimmta sætinu er Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður með 2 milljónir á mánuði í tekjur.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir alþingismaður er efsta konan á þessum lista en hún er í sjötta sæti með 1,96 milljónir á mánuði. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra er næsta konan á lista en hún er í 10. Sæti með 1,8 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári.

Ef tekjur hinna ráðherrana eru skoðaðar má sjá að samkvæmt tekjublaðinu var Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 1,8 milljón á mánuði en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra voru með 1,73 milljónir á mánuði í tekjur. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra er samkvæmt blaðinu með 1,4 milljónir á mánuði.

Ásmundur Einar neðstur ráðherranna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er skráð með 1,26 milljónir á mánuði í tekjur á síðasta ári. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var með 881 þúsund á mánuði í tekjur og Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra með 703 þúsund.

Ef tekin eru svo nokkur nöfn af handahófi af listanum má sjá að tekjur Gunnars Braga Sveinssonar alþingismanns voru 1,8 milljón á mánuði, Þorsteinn Víglundsson alþingismaður var með 1,7 milljónir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður með 1,2 milljónir.

Aksturskostnaður Ásmunds Friðrikssonar alþingismanns hefur verið mikið til umræðu síðustu mánuði en samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar var hann með 1,2 milljónir í tekjur á mánuði á síðasta ári. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis var með 1,47 milljónir á mánuði í tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×