Körfubolti

Hildur spilar áfram á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri,  með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni.
Hildur Björg Kjartansdóttir, til vinstri, með Berglindi Gunnarsdóttur í landsliðsverkefni. Mynd/Instagram

Íslenski landsliðsmiðherjinn Hildur Björg Kjartansdóttir hefur samið við spænska félagið Celta de Vigo Baloncesto og mun því spila annað tímabil á Spáni.

Celta de Vigo Baloncesto var einum leik frá því að vinna sér sæti í spænsku A-deildinni á síðustu leiktíð.

Hildur segir frá þessu á fésbókinni með orðunum: „Það er gott að vera á Spáni, næsta skref er ákveðið. Er búin að semja við Celta de Vigo Baloncesto og er spennt að spila með þeim næsta tímabil!“

Hildur spilaði með Leganés í spænsku b-deildinni á síðustu leiktíð og var þá með 11,5 stig og 6,5 fráköst að meðaltali í leik. Hún hitti úr 48 prósent skota sinna þar af 40 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Hildur er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur verið byrjunarliðskona í landsliðinu undanfarin ár. Í undankeppni EM 2019 er Hildur með 12,5 stig og 7,8 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjum íslenska landsliðsins.

Hún er uppalinn hjá Snæfelli og varð Íslandsmeistari með liðinu áður en hún fór út í nám til Bandaríkjanna. Hildur var í þrjú ár í Texas–Rio Grande Valley en útskrifaðist fyrir ári síðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.