Viðskipti erlent

Deila persónulegum gögnum með meintri þjóðaröryggisógn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, þegar hann kom fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í apríl.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, þegar hann kom fyrir nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í apríl. Vísir/getty

Samfélagsmiðlarisinn Face­book, sem starfrækir miðla á borð við Messenger, Facebook, Insta­gram og WhatsApp, deilir gögnum um notendur sína með að minnsta kosti fjórum kínverskum tæknifyrirtækjum. Þar með talinn er símaframleiðandinn Huawei, sem bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sagt að þjóðaröryggisógn stafi af vegna meintra tengsla við kínversk yfirvöld.

Facebook staðfesti tilvist samninganna í fyrrinótt en auk Huawei er um að ræða tölvuframleiðandann Lenovo Group og símaframleiðendurna OPPO og TCL Corp. Alls eru fyrirtækin, sem Facebook hefur gert slíka gagnadeilingarsamninga við, um sextíu talsins,

Fyrirtækið sagði þó að gildistími rúmlega helmings samninganna væri liðinn. Þá var tilkynnt að samningnum við Huawei yrði rift síðar í vikunni og samningunum við hin kínversku fyrirtækin sömuleiðis með tíð og tíma.

The New York Times greindi fyrst frá tilvist samninganna á þriðjudag en þeir voru gerðir undir lok síðasta áratugar, áður en sérstakt Facebook-app var tekið í almenna notkun. Gáfu þeir kínversku fyrirtækjunum heimild til að bjóða upp á ákveðna eiginleika Facebook í símum sínum.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI), leyniþjónustan (CIA) og þjóðar­öryggisstofnunin (NSA) vöruðu bandaríska neytendur við því í febrúar að kaupa snjallsíma úr smiðju Huawei. Toppar stofnananna komu fyrir upplýsingamálanefnd öldungadeildar þingsins og sögðu að öryggisógn stafaði af fyrirtækjunum.

„Það fylgir því ákveðin áhætta að leyfa fyrirtæki, skuldbundnu erlendri ríkisstjórn, að starfa innan fjarskiptainnviða ríkisins,“ sagði Chris Wray alríkislögreglustjóri á fundinum og bætti við: „Það gerir fyrirtækinu kleift að breyta eða stela upplýsingum og auðveldar þeim njósnir.“

Huawei er þriðji stærsti snjallsímaframleiðandi heims. Þrátt fyrir það hefur fyrirtækinu ekki tekist að brjótast inn á Bandaríkjamarkað, einkum vegna fyrrnefndra áhyggna. Í apríl sagði Richard Yu, forstjóri Huawei, að fyrirtækið ætlaði sér toppsætið og að vinna traust bandarískra neytenda.

Huawei er meðal þriggja stærstu snjallsímaframleiðenda heims. Vísir/Epa

„Þessar áhyggjur byggjast á órökstuddum grun og eru í rauninni ósanngjarnar. Við erum opin fyrir gegnsæjum viðræðum á staðreyndagrundvelli,“ sagði Yu við CNET í apríl.

Hér á Íslandi selja til að mynda Síminn og Elko síma frá Huawei. Vert er þó að taka fram að engar upplýsingar um meintar njósnir Huawei fyrir kínversk yfirvöld hafa komið fyrir augu almennings.

Allt frá því Cambridge Analytica-hneykslið svokallaða komst í fréttirnar á dögunum hafa stjórnmálamenn og fjölmiðlar vestanhafs fylgst náið með aðgerðum Facebook. Kom Mark Zuckerberg forstjóri sjálfur til að mynda fyrir báðar deildir þingsins til að svara spurningum og játaði að mistök hefðu verið gerð þegar persónulegum upplýsingum var deilt með áróðursfyrirtækinu.

Og ljóst er að bandarískir stjórnmálamenn hafa áhyggjur af samningnum nú. Demókratinn Mark Warner, varaformaður upplýsingamálanefndarinnar, sagði við The New York Times að fréttirnar væru mikið áhyggjuefni. „Ég hlakka til að heyra meira um það hvernig Face­book kom í veg fyrir að gögnin væru vistuð á kínverskum vefþjónum,“ sagði Warner.

Facebook hefur sagt að fyrirtækið hafi haft fulla stjórn á upplýsingaflæðinu. „Við viljum hafa það á hreinu að allar upplýsingar voru vistaðar á símunum sjálfum, ekki á vefþjónum Huawei,“ sagði Francisco Varela, varaforseti hjá Facebook.

Debbie Dingell, fulltrúadeildarþingmaður og Demókrati, sagði í gær að málið væri reginhneyksli. Bandaríkjamenn ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að persónulegar upplýsingar þeirra gætu verið vistaðar á vefþjónum í Kína. Fulltrúadeildin þyrfti að rannsaka málið ofan í kjölinn og koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig.

„Af hverju fær Huawei, fyrirtæki sem leyniþjónustusamfélagið okkar hefur sagt ógn við þjóðaröryggi, aðgang að persónulegum upplýsingum okkar? Í ljósi fjölda notenda Facebook yrðu möguleg áhrif á friðhelgi einkalífs okkar og þjóðaröryggi gríðarleg,“ sagði Dingell.

Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður og Repúblikani, tók í sama streng. „Af hverju upplýsti Facebook ekki um þennan samning fyrir löngu? Þetta er ekki sambærilegt samningum við aðra framleiðendur. Suðurkóreska ríkisstjórnin stýrir hvorki né notar Samsung eins og Kína stýrir og notar Huawei,“ sagði Rubio.


Tengdar fréttir

Segja Facebook stunda persónunjósnir

Mark Zuckerberg er sakaður um að hafa þróað aðgerðaáætlun fyrir Facebook sem miðaði að því að nýta sér mikið magn persónulegra upplýsinga notenda til þess að fyrirtæki hans gæti grætt milljarða og gert út af við keppinauta.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
2,8
8
18.571
MARL
1,56
56
1.809.084
LEQ
1,37
1
1.549
EIM
0,57
6
22.188
ARION
0,5
12
152.139

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
GRND
-2,46
7
55.714
EIK
-2,24
7
75.346
REITIR
-1,86
12
277.872
SIMINN
-1,77
8
142.210
FESTI
-1,74
5
116.070
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.