Skoðun

Kjallari einkamálanna

Bjarni Karlsson skrifar
Við erum að lifa merkilegt breytingaskeið þegar mál sem áður þóttu blygðunarefni eru dregin fram í almannarýmið. M.a. stafar þetta af því að við skiljum betur nú en áður hvernig allt er innbyrðis tengt og háð. Lífsmáti annarra hefur áhrif á mig og kemur mér við. Ofurlaun eru ekkert einkamál, ofbeldi á heimili eða vinnustað er heldur ekki einkamál, sóðaskapur eins bitnar á öllum og ef einhver sem er að þjást af alvarlegum sjúkdómi vill segja sögu sína opinberlega þá er það líka alveg viðeigandi. Skilin milli opinbers og einka eru orðin að félags-pólitísku samkomulagi og það er heilbrigt.

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur hefur vakið athygli á enn einu óafgreiddu ranglætismálinu sem ekki verður undan vikist að taka til skoðunar í gegnum taugakerfi þjóðarinnar og varðar hinn svonefnda Ungmennadómstól sem fjallaði um samskipti íslenskra kvenna við hernámsliðið í seinni heimsstyrjöldinni. Vitundarvakningin snýst um að losna við grjótið úr vösunum og móta sanngjarnari leikreglur í einkalífi jafnt sem opinberu lífi. Það er hins vegar stór galli hvað þau sem hlaupið hafa á sig eða drýgt glæpi eiga lítinn séns.

Þegar við hættum meðvirkninni og byrjuðum að rífa múrinn milli einkarýmisins og opinbera rýmisins er eins og við höfum skilið eftir lítið hólf í kjallara einkamálanna þar sem allar hugmyndir um endurreisn fólks og fyrirgefningu misgjörða eru kyrfilega bannaðar. Fátt er nú álitið meiri dónaskapur en að boða fyrirgefningu synda. Vandinn er sá að samfélag sem tekur ekki mark á iðrun og yfirbót, hæðist að krafti fyrirgefningarinnar og rænir hinn seka möguleikanum á að rísa á fætur, mun aldrei losna við skömmina úr sálinni því það kann bara að lýsa henni en ekki að lækna hana.




Skoðun

Sjá meira


×