Skoðun

Borgar línan sig?

Haukur Örn Birgisson skrifar
Af nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum er það einna helst að frétta að núverandi meirihluti er fallinn. Þá þarf víst að mynda nýjan. Af þeim sökum keppist forystufólk flokkanna við að færa rök fyrir því hvers vegna þeirra flokkur eigi að tilheyra nýjum meirihluta og stýra skútunni næstu fjögur árin. Alls konar málefni eiga þar að ráða för. Furðulegustu rökin finnst mér koma frá þeim sem telja að mynda eigi meirihluta, byggðan upp á þeim flokkum sem deila sýn á svokallaða Borgarlínu. Þessu fólki getur ekki verið alvara.

Tillagan um Borgarlínuna er ekki einu sinni komin á teikniborðið, hún er enn á hugmyndastigi. Þar fyrir utan krefst hún samstarfs allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í því samhengi er rétt að benda á að til þessa hefur ekki eitt einasta sveitarfélag gert ráð fyrir svo miklu sem einni krónu í verkefnið og ekki er gert ráð fyrir verkefninu í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins (sem á að greiða helming alls kostnaðar). Það eru því nánast engar líkur á því að þetta verði að veruleika á næsta kjörtímabili og því fráleitt að mynda borgarstjórn utan um hugmyndina. Önnur verkefni hljóta að skipta meira máli.

Þótt vinstriflokkarnir Samfylking og Vinstri grænir hafi tapað miklu fylgi í kosningunum þá fengu raunverulegir félagshyggjuflokkar töluvert fylgi. Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn settu málefni þeirra verst settu á oddinn og hlutu hljómgrunn. Flokkarnir gætu því verið í lykilstöðu þegar kemur að myndun nýs meirihluta í borginni. Það er erfitt að ímynda sér að þessir flokkar ætli sér virkilega að verja 70 milljörðum króna (sem mun alltaf enda sem töluvert hærri fjárhæð) í strætóleið um höfuðborgarsvæðið. Ætli kjósendur þeirra myndu ekki kalla það einkennilega forgangsröðun.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×