Handbolti

Steinunn: Höfðum alltaf trú á því að við yrðum Íslandsmeistarar

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Steinunn himinlifandi í kvöld, fremst í flokki.
Steinunn himinlifandi í kvöld, fremst í flokki. vísir/vilhelm
Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar er Fram tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð í kvöld.

Steinunn var frábær í leiknum í kvöld og var himinlifandi við sinn árangur og sigurinn í kvöld.

„Geðveik úrslitakeppni, geggjað einvígi, geggjuð spenna og gaman að klára þetta á heimavelli.“ 

„Okkur langaði þetta svo virkilega mikið. Þetta hafa verið baráttuleikir fram og tilbaka áhlaup frá báðum liðum. Okkar áhlaup kom á lokakaflanum í dag og það skilaði okkur sigrinum,“ sagði Steinunn en Fram átti frábæran lokakafla í kvöld þegar þær snéru leiknum úr 16-19 í 26-22.

Það er langt síðan það hefur verið jafn mikil stemning á leik í Olís-deild kvenna og var í kvöld. Mikil læti voru í stuðningsmönnum beggja liða allt frá fyrstu mínútu og var vel mætt.

„Þetta var ótrúlegur stuðningur og ég verð að hrósa Völsurum, þessi hópur hjá þeim var sturlað skemmtilegur. Þeir voru ekkert dónalegir, voru bara skemmtilegir og það má vel taka þá til fyrirmyndar. Framararnir voru frábærir líka, voru miklu fjölmennari en Valsmenn og létu vel í sér heyra.”

„Þetta er svo ógeðslega skemmtilegt, ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja,“ sagði Steinunn sem átti erfitt með að lýsa tilfinningum sínum, en gleðin var allsráðandi hjá henni.

Fram byrjaði mótið rólega en eftir áramót fór að myndast það ógna sterka lið sem hópurinn hafði uppá að bjóða. Steinunn sagði að leikmenn hefðu alltaf haft trú á þessum hópi þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmenn í meiðsli.

„Við höfðum alltaf trú á því að við myndum klára þetta mót en eftir að við endurheimtum liðið okkar allt til baka þá fór þetta að gerast,“ sagði Steinunn sem þurfti að lokum að hlaupa frá til að taka við verðlaunum.


Tengdar fréttir

Steinunn mikilvægasti leikmaðurinn

Steinunn Björnsdóttir, varnar- og línumaður Fram, var valinn mikilvægasti leikmaður í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×