Viðskipti innlent

Mesti vöxturinn er í Airbnb

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Allar tegundir gististaða hér á landi eru að missa hlutdeild til Airbnb sem hefur vaxið langhraðast.
Allar tegundir gististaða hér á landi eru að missa hlutdeild til Airbnb sem hefur vaxið langhraðast. Vísir/Vilhelm
Vöxtur ferðaþjónustunnar er aðallega í deilihagkerfinu gegnum Airbnb samkvæmt nýrri skýrslu Íslandsbanka. Airbnb er með fjórðung af gistimarkaðnum. Teymi bankans á sviði ferðaþjónustu reiknar með minni fjárfestingu í hótelum á næstu fjórum árum.

Í skýrslunni kemur fram að hótel og gistiheimili séu að missa markaðshlutdeild til Airbnb. „Nú er svo komið að deilihagkerfið stefnir í að verða umfangsmeira en öll hótel á landinu til samans þegar kemur að gistingu ferðamanna hér á landi,“ segir Kristín Hrönn Guðmundsdóttir í aðfaraorðum skýrslunnar.

Airbnb er núna með rúmlega fjórðungshlutdeild á íslenska gistiþjónustumarkaðnum. „Allar tegundir gististaða eru að missa hlutdeild til Airbnb sem hefur vaxið langhraðast,“ segir í skýrslunni. Airbnb nálgast hótelin óðfluga í umfangi og er nú þegar orðið um þrisvar sinnum umfangsmeira en öll gistiheimili landsins.

Skipting gistinátta sem er rakin í skýrslunni er athyglisverð. Hótelin eru með 37% markaðshlutdeild eða 4,3 milljónir gistinótta en Airbnb er með 27% hlutdeild og 3,2 milljónir gistinótta. Gistiheimili eru svo með 12% markaðarins.

Airbnb tekur til sín rúmlega ársframboð nýbygginga og framlag Airbnb í hækkun íbúðaverðs undanfarin þrjú ár nemur um 15% að sögn skýrsluhöfunda. 

Alls er áætlað að fjárfest verði í hótelum á höfuðborgarsvæðinu fyrir 44 milljarða króna til og með árinu 2021. 

Skýrsla Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu.


Tengdar fréttir

Tíu tekjuhæstu á Airbnb veltu 1.300 milljónum

Leiguvefurinn Airbnb er orðinn næstumfangsmesta gistiþjónusta landsins með um 30 prósenta hlutdeild. Gistinóttum á vegum Airbnb fjölgaði um 1,6 milljónir í fyrra. Tíu tekjuhæstu leigusalarnir veltu samtals 1,3 milljörðum króna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.