Handbolti

Einar Andri: Guðjón L var búinn að fletta þessu upp í reglubókinni sinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Einar Andri Einarsson er þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson er þjálfari Aftureldingar. vísir/eyþór

„Við byrjuðum af krafti og spiluðum vel. Við lögðum allt í þetta en FH-ingar eru sterkari en við líkt og í síðasta leik og í vetur. Við töpuðum bara fyrir betra liði og þurfum að horfast í augu við það,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar eftir tapið gegn FH í dag sem sendi Mosfellinga í sumarfrí.

Undir lok leiksins átti sér stað sérstakt atvik þar sem leikmenn Aftureldingar voru of margir inni á vellinum og fengu fyrir það brottvísun. Einar Andri var ekki allskostar sáttur og uppskar aðra brottvísun frá eftirlitsmanninum, Guðjóni L. Sigurðssyni.

„Ég var ekkert að kvarta í dómurunum. Það var vitlaus skipting og leikmaðurinn sem fattaði það hleypur út af og það er aðal varnarmaðurinn í liðinu sem við viljum hafa inni á vellinum.“

„Yfirleitt þegar of margir eru inná fær bekkurinn að velja hver fer út en Guðjón L. Sigurðsson var búinn að lesa þetta allt út og fletta upp í reglubókinni sinni og fann þetta út,“ sagði Einar Andri.

Mosfellingar mættu til leiks fyrir tímabilið með vel mannað lið sem búist var við töluvert miklu af en staðreyndin er sú að þeir eru komnir í sumarfrí eftir tap í 8-liða úrslitum.

„Þetta eru virkileg vonbrigði, við ætluðum okkur stærri hluti. Við byrjuðum tímabilið illa en lékum síðan vel á löngum kafla og náðum að koma okkur í þokkalega stöðu í deildinni. Við erum búnir að vera með mannskapinn okkar í nokkrar vikur í þokkalegu standi og höfðum trú á að við gætum spilað betur.“

„FH-ingar voru einfaldlega betri og við þurfum að horfast í augu við það. Það má hrósa þeim og óska þeim góðs gengis í framhaldinu,“ sagði Einar Andri að lokum og bætti við að hann yrði áfram þjálfari liðsins á næstu leiktíð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.