Körfubolti

Benedikt um Jón Axel: "Hann er kominn á stóra sviðið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson leikur fyrstur Íslendinga í úrslitakeppninni í bandaríska háskólakörfuboltanum, en Jón Axel og félagar í Davidson-háskólanum tryggðu sig inn í úrslitakeppnina um helgina.

„Fyrir mér er þetta gífurlegt afrek. Þeir spila í fyrstu deildinni í háskólaboltanum í mjög sterkum riðli og enda í þriðja sætinu,” sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennaliðsins og yngri flokka KR, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

„Þetta er hans annað ár og hann fær að spila töluvert í fyrra. Enn meira í vetur og svo er hann búinn að bæta sig gífurlega. Ef hann heldur áfram að bæta sig svona þá gæti eitthvað stórt og mikið verið framundan hjá honum.”

68 lið leika til úrslita um titilinn, en Jón Axel og félagar eiga erfitt verkefni fyrir höndum.  

„Þeir mæta gífurlega sterkum skóla, einum sterkasta skólanum í háskólaboltanum. Kentucky dælir leikmönnum inn í NBA á hverju einasta ári og þarna koma menn eins og Anthony Davis, DeMarcus Cousins og fleiri.”

„Þetta verður erfitt, en þessi úrslitakeppni er þannig að það er einhver öskubuskuævintýri og þetta er bara einn leikur. Það getur allt gerst. Þetta er bikarfyrirkomulag og vonandi fáum við skemmtilegt öskubuskuævintýri hjá Davidson háskólanum.”

Glugginn sem Jón Axel er búinn að koma sér í er rosalegur. Margar milljónir horfa á leiki í þessari deild og þá sér í lagi í úrslitakeppninni og ljóst er að mörg stórlið munu horfa á leikina einnig.

„Þarna er hann kominn á stóra sviðið. Það er gríðarlegt áhorf og þetta er eitt vinsælasta sjónvarpsefnið í Bandaríkjunum. Atvinnumannaliðin fylgjast með þessu og þetta er sviðið þar sem stjörnur fæðast. Þetta er fáránlega spennandi verkefni,” sagði Benedikt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×