Viðskipti innlent

Vill að Gildi selji allt hlutafé í N1 vegna launahækkunar forstjórans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Guðmundur Ragnarsson er formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson er formaður VM. vísir/anton
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna hyggst leggja fram þá tillögu á stjórnarfundi lífeyrissjóðsins Gildis að sjóðurinn selji allt hlutafé sitt í N1.

„Ósmekkleg launahækkun forstjóra N1 má ekki standa. Mér, sem svo mörgum öðrum, er misboðið. Ég sit í stjórn Lífeyrissjóðsins Gildis og ætla að nota aðstöðu mína sem stjórnarmaður til að krefjast þess að sjóðurinn sendi sterk skilaboð inn á hlutabréfamarkaðinn, með því að selja hlutabréf sjóðsins í N1,“ er haft eftir Guðmundi á vef félagsins.

Laun og hlunnindi Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra N1, hækkuðu um 20,7 prósent í fyrra samanborið við árið áður samkvæmt ársreikningi félagsins. Hefur launahækkunin vakið hörð viðbrögð meðal verkalýðsleiðtoga og hyggst stjórn VR meðal annars leggja fram tillögu á aðalfundi N1 um að öllum starfsmönnum fyrirtækisins skuli tryggð sama kjarahækkun og forstjóri félagsins fékk á liðnu ári.

„Ég set stórt spurningarmerki við hæfi forstjórans og stjórnar félagsins ef þau eru ekki hæf til að lesa inn í ástandið í samfélaginu. Hvernig fer þetta fólk að því að leggja mat á markaðinn sem fyrirtækið starfar á, ef þau ná ekki að vera í sambandi við samfélagið sem þau búa í,“ er haft eftir Guðmundi.

Hyggst hann leggja til formlega tillögu á næsta stjórnarfundi Gildis, sem er 22. mars næstkomandi, að sjóðurinn losi sig við allt hlutafé í N1. Gildi er næststærsti hluthafinn í N1 en félagið á 9,22 prósent hlut í félaginu.


Tengdar fréttir

Forstjóri N1 hækkaði um milljón á mánuði

Laun og hlunnindi fimm helstu stjórnenda N1 hf. námu rúmum 210 milljónum króna í fyrra og hækkuðu um nærri 30 milljónir milli ára. Laun og hlunnindi forstjórans hækkuð um 20,7 prósent, eða sem nemur rúmri milljón á mánuði


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.