Viðskipti innlent

Forstjóri N1 hækkaði um milljón á mánuði

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, fékk greiddar rúmlega 12 milljónir króna meira í laun og hlunnindi í fyrra en árið áður
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, fékk greiddar rúmlega 12 milljónir króna meira í laun og hlunnindi í fyrra en árið áður Vísir/VALLI
Laun og hlunnindi Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra N1, hækkuðu um 20,7 prósent í fyrra samanborið við árið áður samkvæmt ársreikningi félagsins. Laun og hlunnindi fjögurra framkvæmdastjóra fyrirtækisins hækkuðu á sama tíma um tæp 16 prósent.

Fram kemur í ársreikningnum að laun og hlunnindi forstjóra N1 hafi á síðasta ári numið nærri 70,5 milljónum króna, eða sem nemur tæpum 5,9 milljónum á mánuði. Árið 2016 námu heildarárslaun og hlunnindi forstjórans 58,4 milljónum króna, eða sem nemur rúmlega 4,8 milljónum á mánuði. Hækkunin milli ára nemur því 12,1 milljón króna eða sem nemur rúmlega einni milljón króna á mánuði.

Til samanburðar þýðir þessi hækkun að forstjóri N1 er nú næstum á pari við launahæsta bankastjóra landsins, Höskuld H. Ólafsson hjá Arion banka sem fékk 71,2 milljónir í laun og árangurstengdar greiðslur á síðasta ári. Enginn forstjóri annarra skráðra félaga í Kauphöllinni fékk viðlíka hækkun milli ára og forstjóri N1. Kjör fjögurra framkvæmdastjóra félagsins bötnuðu einnig mikið milli ára samkvæmt ársreikningnum.

Heildargreiðslur til þeirra á síðasta ári námu 140,2 milljónum króna, eða sem nemur að meðaltali 2,9 milljónum á mánuði hjá hverjum og einum samanborið við 122,2 milljónir árið 2016, eða sem nemur 2,5 milljónum á mánuði hjá hverjum þeirra. Hækkunin nemur tæpum 16 prósentum sem fyrr segir.

Fréttablaðið leitaði skýringa á hvað lægi að baki þessum hækkunum milli ára hjá forstjóra N1. Eggert Þór segir að nánari grein verði gerð fyrir grunnlaunum og hlunnindum stjórnenda fyrirtækisins á komandi aðalfundi á mánudag. Þar sem félagið sé skráð á markað sé að svo stöddu ekki hægt að upplýsa um sundurliðun kaups og kjara fyrr en þá.

Hagnaður N1 hf. nam rétt rúmum tveimur milljörðum á síðasta ári samanborið við tæplega 3,4 milljarða árið 2016 og dróst því saman um nærri 1,4 milljarða króna. Stærstu hluthafar félagsins eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem á 13,3 prósenta hlut og Gildi lífeyrissjóður með 9,2 prósenta hlut. Ekki náðist í forsvarsmenn sjóðanna við vinnslu fréttarinnar. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.