Körfubolti

Tryggvi fær skráðan á sig landsleik þrátt fyrir að vera staddur í flugvél á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Bára
Tryggvi Snær Hlinason var frábær í sigri Íslands á Tékklandi í undankeppni HM í körfubolta í gær. Miðherjinn frá Svartárkoti í Bárðardal sýndi og sannað mikilvægi sitt fyrir íslenska körfuboltalandsliðið.

Tryggvi kom öflugur inn af bekknum og var með 15 stig, 8 fráköst og 3 varin skot á aðeins 21 mínútu. Ísland vann leikinn með einu stigi, 76-75.

Tryggvi gat ekki spilað í fyrri leiknum í þessu landsleikjahléi þar sem að hann var þá staddur í flugvél á leiðinni frá Svíþjóð til Íslands.Tryggvi átti að koma til landsins í tíma fyrir leikinn á móti Finnlandi en óveðrið á föstudaginn sá til þess að flugi hans seinkaði.

Eftirlitsmaður FIBA á leiknum var hinsvegar búinn að fara yfir og staðfesta leikskýrsluna þegar þetta kom í ljós. Tryggvi var því á skýrslu þótt að hann væri enn í háloftunum og í raun ekki staddur á landinu þegar leikurinn hófst. Íslenska liðið hafði aðeins ellefu leikmenn í leiknum.

Trygggvi fær því skráðan á sig landsleik í Laugardalshöllinni á föstudagskvöldið en það verður landsleikur númer 26 hjá honum.

Það hefur komið fyrir að leikmenn hafi fengið skráðan á sig landsleik þrátt fyrir að vera ekki í búning en þetta er örugglega fyrsti landsleikur Íslendings sem er ekki staddur í sama landi þegar leikurinn er flautaður á.

Samkvæmt heimildum Vísis þá náði Tryggvi að lenda í Keflavík áður en þriðja leikhluta lauk. Hann var hinsvegar fastur út í vél á meðan veðrið gekk yfir og því tæknilega ekki kominn til landsins ennþá. Tryggvi ætti þó að hafa getað horft á leikinn í símanum.

Félagar Tryggva náðu sem betur fer að landa sigrinum án hans á föstudaginn og nutu síðan góðs af því að fá hann ferskan inn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×