Golf

Valdís Þóra úr leik í Ástralíu

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
LET/Tristan Jones
Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir var grátlega nálægt því að komast í gegnum niðurskurðinn á Actewagl Canberra Classic mótinu í Ástralíu en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi. Aðeins munaði einu höggi að hún fengi að halda áfram leik á mótinu.

Valdís lék á þremur höggum yfir pari fyrsta hringinn en annar hringurinn var mun betur leikinn hjá henni. Spilaði hún hann á einu höggi undir pari, fékk þrjá fugla, 13 pör og aðeins tvö skolla.

Evrópumótaröðin er stutt á veg komin þetta ár, en þetta er einungis annað mótið sem spilað er. Valdís hafnaði í 53. sæti í fyrsta mótinu sem einnig fór fram í Ástralíu, um síðustu helgi.

Heimakylfingurinn Minjee Lee leiðir mótið sem stendur, en hún spilaði ótrúlegt golf í nótt, fór hringinn á 63 höggum og er 14 höggum undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×