Umfjöllun og viðtöl: Valur - Njarðvík 73-106 | Þrot hjá Valsmönnum í seinni hálfleik

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Oddur Rúnar Kristjánsson.
Oddur Rúnar Kristjánsson. Vísir/Ernir
Valur fékk Njarðvík í heimsókn í Dominos deild karla er 16. umferð hófst í kvöld. Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik en Valsmenn byrjuðu leikinn betur og voru með yfirhöndina framan af leik. Njarðvík náði sér á strik rétt fyrir hlé og var staðan hnífjöfn, 46-46 að loknum annars leikhluta.

En ef einhverjir voru að gera sér vonir um að leikurinn yrði hnífjafn til enda þá voru þær vonir ekki lengi að enda í vaskinum. Njarðvík gjörsamlega tók öll völd á meðan leikur Vals hríðféll líkt og fallhlífarstökk án fallhlífar.

Njarðvík vann á endanum stórsigur, 73-106 en í seinni hálfleik skoraði Valur einungis 27 stig á meðan Njarðvík skoraði 60 stig.

Afhverju vann Njarðvík?

Njarðvík hélt haus allan leikinn á meðan Valsmenn gjörsamlega missti hann. Það og aukinn gæði og breiðari hópur spilaði inn í og skilaði gestunum frá Njarðvík öruggum sigri.

Hvað gekk illa?

Varnar og sóknarleikur Vals var eiginlega ófyndin brandari í seinni hálfleik og það var eins og nýtt lið hefði reimað á sig skóna því Valsmenn voru mjög brattir fyrir hlé.

Afhverju liðið missti hausinn veit ég ekki alveg en Njarðvík átti að lokum sigurinn fyllilega skilið.

Hverjir stóðu upp úr?

Ragnar Nathanaelsson var ágætur fyrir hlé en var svo gjörsamlega óstöðvandi, eins og allt Njarðvíkur liðið, í þeim seinni. En hann á mikið lof skilið en hann endaði leikinn með 13 fráköst og 10 stig. Valsmenn réðu ekkert við hann.

Þar að auki má nefna Terrell Vinson sem skoraði 30 stig og tók 10 fráköst. Algjörlega frábær leikur hjá honum.

Ágúst Björgvinsson þjálfar Valvísir/ernir
Ágúst: Við áttum engin svör

„Við höfðum engin svör við góðum leik Njarðvíkur. Þeir spiluðu bara ótrúlega vel í þriðja leikhluta og við spiluðum á sama tíma ótrúlega illa,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals í leikslok.

„Við byggðum okkar leik á varnarleik en um leið og það byrjaði að hiksta hjá okkur í sókninni þá datt líka allur dampur úr varnarleiknum okkar. Þetta hélst einhvernveginn í hendur.“

Sóknarleikur liðsins var hroðalegur í seinni hálfleik en Ágúst segist hafa meiri áhyggjur af varnarleik liðsins í þessum leik.

„Við þurfum að gera betur varnarlega. Held við þurfum að horfa meira þangað enn á sóknarleikinn.“

 

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Ernir
Daníel: Sem betur fer fóru strákarnir að hlusta á mig

Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var mjög sáttur í leikslok eftir afgerandi sigur liðsins á Val í kvöld.

„Mér líður mjög vel. Þetta er í fyrsta sinn í vetur sem við vinnum svona afgerandi,“ sagði Daníel en afgerandi var sigurinn svo sannarlega en Njarðvík sigraði með 33 stigum, 73-106.

Leikurinn var þó hnífjafn framan af leik en Valur byrjaði leikinn betur og var yfir framan af leik.

„Þetta var erfið byrjun hjá okkur. Strákarnir voru ekki að gera það sem við lögðum upp með. Við byrjuðum svo á því í seinni hálfleik og þá koma yfirleitt jákvæðar niðurstöður. Þetta gekk fullkomlega upp í seinni hálfleiknum.”

Valsmenn réðu ekkert við sóknarleik Njarðvíkinga í seinni hálfleik en Ragnar Nathanaelsson átti stórleik eftir hlé og endaði leikinn með 13 fráköst og tíu stig.

„Við viljum fá boltann inn í teig. Um leið og boltinn fer þangað þá galopnast fyrir utan. Ég er mjög ánægður með Ragga Nat og hvernig hann kom inn í þetta og sérstaklega seinni hálfleik.“

Njarðvík byrjaði leikinn ekki vel eins og áður kom fram og í einu af fyrstu leikhléum Njarðvíkur tók Daníel upp hárblásarann og lét sína menn heyra það.

„Það þarf að gera það þegar menn eru ekki að fylgja því sem við lögðum upp með. Sem betur fer breyttu strákarnir um takt og fóru að hlusta á hvað ég var að segja. Það gekk upp.“

Það gekk svo sannarlega upp.

Raggi Nat: Er hættur að láta hausinn þvælast fyrir

Hinn hávaxni Ragnar Nathanaelsson átti stórleik fyrir Njarðvík í kvöld er hann skoraði 10 stig og tók 13 fráköst.

„Við byrjuðm hræðilega. Verandi jafnir svona viltu liði í hálfleik eins og Val í hálfleik þá gat þetta auðveldlega farið á báða vegu. Við ákváðum að gera það sem Daníel var að segja okku að gera og það endaði með þrjátíu stiga sigri.“

Ragnar hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er vetri en í undanförnum leikjum hafa verið mikil batamerki og í kvöld gjörsamlega blómstraði hann.

„Þetta var að fara niður hjá mér í dag þannig ég vildi fá hann. Loksins er ég líkur sjálfum mér og hættur að láta hausinn þvælast fyrir.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira