Þó svo Washington Wizards hafi lent 24 stigum undir í nótt en samt komið til baka og unnið var einn af leikmönnum liðsins allt annað en sáttur.
Wizards hefur byrjað tímabilið illa, eins og svo oft áður, og er 6-11. Mórallinn í liðinu hefur verið slæmur og menn að rífast mikið á æfingum.
Flottur endurkomusigur gegn Clippers hefði átt að létta brún leikmanna en svo virðist alls ekki vera.
„Það er allt í fokki hjá okkur. Þess vegna myndi ég ekki segja að þetta breyti neinu. Við verðum að vinna okkur úr þessu,“ sagði Markief Morris, leikmaður Wizards.
„Það sem heyrist úr búningsklefanum er algjörlega galið. Svona gerist ekki í öðrum íþróttum. Það er allt í tómu rugli hjá okkur.“
Spurning hvernig stemningin verður er liðið spilar við Toronto á föstudag?
Úrslit:
Orlando-Toronto 91-93
Washington-LA Clippers 125-118
Miami-Brooklyn 92-104
NY Knicks-Portland 114-118
