Innlent

Telur að afsláttur til Eyjamanna feli ekki í sér mismunun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Herjólfur siglir frá Heimaey.
Herjólfur siglir frá Heimaey. Vísir/Einar
Framkvæmdastjóri Herjólfs ohf segir að ekki sé verið að mismuna fólki eftir búsetu með því að bjóða Vestmannaeyingum helmingsafslátt í Herjólf. Hann segir að verið sé að færa kerfið úr fyrirframgreiddum afsláttarkortum yfir í stakar ferðir.

Stjórn Herjólfs ohf samþykkti í lok síðustu viku siglingaáætlun og gjaldskrá fyrir félagið sem á að taka gildi 30. mars næstkomandi þegar nýr Herjólfur hefur siglingar milli lands og Eyja.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs.
Tillögurnar gera meðal annars ráð fyrir því að fólk með lögheimili í Vestmannaeyjum fái helmingsafslátt í Herjólf. Þannig munu Eyjamenn borga 800 krónur fyrir staka ferð en aðrir 1.600. Ökumenn fólksbíla með lögheimili í Vestmannaeyjum verða rukkaðir um 1.500 krónur en aðrir þurfa að borga 3.000 krónur.

Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs ofh telur þetta sé í samræmi við lög.

„Menn mega ekki gleyma því að í gildi eru afsláttarkort sem að Vestmannaeyingar sem og aðrir hafa getað keypt. Með þessu er einfaldlega verið að færa þetta úr fyrirframgreiddum afsláttarkortum yfir í stakar ferðir með afslætti,“ segir Guðbjartur.

Guðbjartur segir að ekki sé verið að mismuna fólki eftir búsetu.

„Við teljum svo ekki vera. Þetta er samgöngukerfi sem þarf að fullnægja þörfum samfélagsins í Vestmannaeyjum. Þeir sem eru að nota þetta að öllu jöfnu og hvað mest eru íbúar í Vestmannaeyjum,“ segir Guðbjartur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×