Körfubolti

Strákarnir bættu sig um 38 stig frá NM og unnu Svíana á EM í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigvaldi Eggertsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 18 stig.
Sigvaldi Eggertsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 18 stig. Mynd/FIBA
Íslenska 18 ára landsliðið í körfubolta vann átta stiga sigur á Svíum, 71-63, í Evrópukeppninni í Tallin í Eistlandi í dag. Strákarnir bættu sig um 38 stig frá því leik á móti sænska liðinu á Norðurlandamótinu fyrr í sumar.

Ísland á því enn möguleika á að enda í níunda sæti í b-deild Evrópukeppni U18 eftir að hafa verið grátlega nálægt því að komast í átta liða úrslit keppninnar.

KR-ingurinn Sigvaldi Eggertsson fór á kostum í leiknum og var með 18 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar en Skallagrímsmaðurinn Bjarni Jónsson bætti við 13 stigum, 12 fráköstum og 5 stoðsendingum.

KR-ingurinn Orri Hilmarsson skoraði 12 stig en Njarðvíkingurinn Grétar Möller og Haukamaðurinn Hilmar Pétursson voru síðan báðir með 7 stig.

Staðan var jöfn, 17-17, eftir fyrsta leikhlutann en íslenska liðið vann annan leikhlutann sannfærandi, 22-11, og var því komið ellefu stigum yfir í hálfleik, 39-28.

Íslensku strákarnir héldu síðan góðu forskoti í þriðja leikhlutanum og lönduðu síðan sigri þrátt fyrir að Svíarnir hafi sótt svolítið að þeim í lokin. Íslenska liðið var 70-54 yfir en Svíarnir skoruðu þá níu stig í röð og minnkuðu muninn í sjö stig. Nær komust þeir þó ekki og 71-63 sigur var í höfn.   

Það sést vel á þessum úrslitum hvað strákarnir eru búnir að bæta sig undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar í sumar því þeir töpuðu með 30 stigum á móti Svíum á Norðurlandamótinu í júní. Nú er liðið búið að finna fjóra flotta sigra á EM og getur tryggt sér níunda sætið á mótinu.

Íslensku strákarnir byrjuðu mótið mjög vel með þremur sigurleikjum en töpuðu tveimur síðustu leikjum sínum í riðlinum og misstu þar með af sæti í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×