Viðskipti innlent

Gufu hleypt á fyrri aflvél Þeistareykja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Valur Knútsson, yfirverkefnisstjóri Landsvirkjunar á Þeistareykjum.
Valur Knútsson, yfirverkefnisstjóri Landsvirkjunar á Þeistareykjum. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Nýjasta stórvirkjun landsins, jarðhitavirkjunin á Þeistareykjum, er að verða tilbúin og verður gufu hleypt í fyrsta sinn á aflvélar í þessari viku. Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá Þeistareykjum og rætt við Val Knútsson, yfirverkefnisstjóra Þeistareykjaverkefnis hjá Landsvirkjun. 

Þeistareykir eru jarðhitasvæði inni á fjalllendinu um 30 kílómetra suðaustur af Húsavík og liggja í um 350 metra hæð yfir sjávarmáli. Boranir eftir jarðhita hófust þar fyrir fimmtán árum. Undirbúningsframkvæmdir vegna virkjunar hófust árið 2014 en fóru svo á fullt árið eftir og nú er virkjunin að verða tilbúin.

Átta borholur á Þeistareykjum skila nú 110 megavatta orku.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Frá borholum er búið að leggja samtals sex kílómetra af pípum að stöðvarhúsinu og í síðustu viku var lokið við að tengja saman Kröflu og Þeistareyki með háspennulínu. Í stöðvarhúsinu er verið að ljúka við að setja upp fyrri aflvélina af tveimur en þær koma frá Fuji í Japan.

Á fimmtudag, 28. september, á svo að gangsetja í fyrsta sinn til að sjá hvort allt virkar, að sögn Vals. Gert sé ráð fyrir að prófanir standi fram til 1. desember þegar vélin verði formlega afhent til rekstrar. 

Mesta óvissan í jarðvarmavirkjun er orkuöflun en Jarðboranir hafa annast boranir á svæðinu fyrir Landsvirkjun. Borun áttundu holunnar lauk í síðasta mánuði.

„Mælingar benda til þess að við höfum gufu sem svarar til 110 megavöttum,” segir Valur. Það sé heldur meiri orka en menn bjuggust við og dugi vel fyrir báðar aflvélarnar. 

„Vélarnar eru tvær, samtals 90 megavött, þannig að við eigum svona smáforða upp á að hlaupa,” segir hann.

Úr stöðvarhúsi Þeistareykjavirkjunar. Prófanir á fyrri aflvélinni hefjast á fimmtudag.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Og þessi rúmlega þrjátíu milljarða króna framkvæmd verður bæði innan tíma- og kostnaðaramma, að sögn Vals. 

„Í heildina erum við bara að standa okkar plikt, - bæði varðandi kostnaðinn og tímann." 

Eftir tvo mánuði fær svo einhver formlega að ýta á takkann en stefnt er að formlegri gangsetningu við hátíðlega athöfn í anda Landsvirkjunar í síðari hluta nóvembermánaðar. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá Þeistareykjum:


Tengdar fréttir

Kísilverið á Bakka fær raforku á réttum tíma

Einstök heppni með veður á norðlenskum heiðum á stóran þátt í því að kísilverið á Bakka fær rafmagn frá Þeistareykjum á réttum tíma en lengi var tvísýnt um háspennulínur vegna kærumála.

Nýtt íbúðahverfi í smíðum á Húsavík

Fasteignaverð hefur hækkað um fjörutíu prósent á Húsavík. Nýtt íbúðahverfi sprettur upp og er byggingartími einstakra húsa aðeins um fjórir mánuðir.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.