Handknattleiksdeild Hauka hefur kært leik kvennaliðs félagsins á móti Selfossi til dómstóls HSÍ en leikurinn fór fram í Olís-deild kvenna á miðvikudagskvöldið.
Selfoss vann leikinn 28-25 og þar fór mikinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem skoraði alls þrettán mörk í leiknum.
Róbert Geir Gíslason, mótastjóri HSÍ, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að kæra hefði borist til dómstóls HSÍ frá Haukum vegna framkvæmdar á leiknum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir þurfti að skipta um treyju eftir að Haukakonan María Karlsdóttir togaði svo hraustlega í Hönnu tveimur mínútur fyrir leikslok að treyja Hrafnhildar Hönnu rifnaði illa.
Hrafnhildur Hanna spilar í treyju númer fjögur en það var enginn önnur treyja númer fjögur til staða og því fór hún í treyju númer þrjú. Í henni spilaði hún síðan síðustu mínútu leiksins.
„Haukar kæra ákvörðun dómara leiksins að leyfa Hönnu að skipta um treyju. Í leikreglum og reglugerð um handknattleiksmót segir að þú megir ekki breyta leikskýrslu. Annars liggur málið hjá dómstól HSÍ þannig að ég kýs að fara ekki dýpra í þetta,“ sagði Róbert Geir í samtali við sunnlenska.is en bætti við að krafa Hauka væri sú að leikurinn yrði spilaður aftur.
Kæran barst dómstól HSÍ í gær sem mat hana dómtæka og Selfyssingar hafa þrjá sólarhringa til þess að bregðast við henni. Róbert segir í samtali við sunnlenska.is að von sé á að niðurstaða í málinu liggi fyrir öðru hvoru megin við næstu helgi.
Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, segir að kæran hafi komið Selfyssingum í opna skjöldu. „Haukar eru stórt handboltafélag sem við berum mikla virðingu fyrir og við munum gera allt til að komast til botns í þessu máli. Haukar og Selfoss hafa átt gott samstarf á liðnum árum, við höfum hjálpað þeim með leikmenn þegar þannig hefur staðið á og viljum því síður að skuggi falli á þessi góðu félagatengsl og munum því sýna öllum hlutaðeigandi mikinn samstarfsvilja,“ sagði Magnús í viðtali við sunnlenska.is.
Haukar kæra tapleikinn á móti Selfossi og vilja annan leik
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Óli Jóh skellihló að viðtali Heimis
Íslenski boltinn

Amorim sagði nei og Man. United missti af 1,6 milljörðum
Enski boltinn

Lentu í rútuslysi og æfingu aflýst
Fótbolti





Mikil blóðtaka fyrir Valsmenn
Körfubolti