Innlent

Vilja lög um veðmál

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hagræðing kappleikja og veðmál voru rædd á málþingi á dögunum.
Hagræðing kappleikja og veðmál voru rædd á málþingi á dögunum. vísir/eyþór
Nauðsynlegt er að vera á varðbergi fyrir hagræðingu úrslita í íþróttum og skoða þarf að gera úrbætur á löggjöf og reglum um veðmál og hagræðingu.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Sveins Helgasonar, sérfræðings hjá innanríkisráðuneytinu, á málþingi um hagræðingu íþróttaleikja sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Fréttablaðið fjallaði í vikunni um leik Fylkis og Fram í öðrum flokki í knattspyrnu karla sem fjöldi tippara græddi vel á þar sem þeir höfðu meiri upplýsingar um leikinn en veðbankar. Sveinn benti í erindi sínu á að veðbankar hefðu fært sig yfir á netið og hefði það gjörbreytt veðmálastarfsemi. Ísland væri ekki lengur eyland.

Auk þess að skoða úrbætur á löggjöf og reglum telur Sveinn mikilvægt að styrkja samvinnu og samráð jafnt innanlands og við erlenda aðila. Í nýju ógnarmati Europol kemur fram að hagræðing íþróttaleikja í Evrópu nái aðallega til fótbolta. Þó sé sjónum einnig beint að tennis, snóker og jafnvel pílukasti. Í sumum tilfellum hafi glæpasamtök fest rætur innan íþróttafélaga til þess að auðvelda sér peningaþvætti og hagræðingu leikja.

Þá kemur fram í ógnarmatinu að glæpasamtök hefðu fest rætur í fjölda evrópskra knattspyrnufélaga og þannig þvættað milljónir evra Nýttu glæpasamtökin milliliði til þess að kaupa knattspyrnufélög sem voru í fjárhagsvandræðum. Vegna lélegs eftirlits hefði svo verið hægt að þvætta peningana með því að kaupa og selja leikmenn og með því að selja sjónvarpsréttindi.


Tengdar fréttir

Tipparar mokgræddu á unglingaleik í Árbæ

Fjárhættuspilarar fá hagstæða stuðla á leiki í 2. flokki þar sem veðmála­fyrir­tæki vita síður af meiðslum og fjarvistum leikmanna. KSÍ er uggandi yfir veðmálum í yngri flokkum. Faðir leikmanns óttast að leikmönnum verði mútað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×