Skoðun

Torlæsi þjóðar – á ábyrgð marga

Guðjón Ragnar Jónasson skrifar
Á dögunum fengum við þær fréttir að átak um læsi í grunnskólum Reykjavíkur hefði engu skilað. Enn og aftur voru það skólarnir sem sátu uppi með Svarta-Pétur. Satt best að segja finnst mér þessi umræða orðin heldur hvimleið. Skólarnir geta ekki séð einir um lestrarkennsluna, foreldrar þurfa að vera fyrirmyndir og sýna bókmenningu og lestri áhuga til að árangur náist.

Mér segir svo hugur að lestrarfærni okkar foreldranna hnigni stöðugt og að þar liggi vandinn ekki síst. Margir kaupa ekki bækur og lesa lítið sem ekkert. Það er alkunna að ríkuleg bókmenning á heimili hvetur unga sem aldna við lesturinn. Sú stefna nútímans að fleygja bókum, þannig að bækur eru gerðar útlægar af heimilum, er ekki góð. Í allmörg ár hafa margir sjónvarpsþættir um tísku og hönnun sýnt ótalin glæsiheimili á Íslandi án bóka enda minna þau mörg hver frekar á dauðhreinsaða tannlæknastofu en hlýlegt heimili.

Hættum að kenna skólunum um hnignandi læsi, hefjum lestrarátak á vinnustöðum og í samfélaginu. Lestur er samstarfsverkefni heimilis og skóla og hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á heimanámi þá þarf reglulegur lestur að vera hluti af daglegum venjum okkar. Hér er umfram allt um að ræða samstarfsverkefni heimilis og skóla. Verkefnið er svo umfangsmikið að skólinn getur aldrei einn og óstuddur leyst það sómasamlega af hendi. Lesturinn þarf því að byggjast á samstarfi kynslóðanna.

Kannski mætti hugsa sér að Samtök atvinnulífsins stæðu fyrir gæðastundum og stuðluðu þannig að öflugri símenntun þar sem starfsmenn fengju tækifæri til að ræða bóklestur og bókmenningu í vinnutímanum. Áðurnefnd samtök hafa oft sterkar skoðanir á skólamálum. Með átaki um læsi á vinnustöðum gætu þau sýnt hug sinn í verki.

Að endingu legg ég til að foreldrafélög grunnskólanna standi fyrir lestrarátaki fyrir foreldra samhliða því sem börnin eru hvött áfram við lesturinn.

 

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×