Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Ak. 92-84 | Langþráður Stjörnusigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur Bæringsson átti góðan leik fyrir Stjörnuna.
Hlynur Bæringsson átti góðan leik fyrir Stjörnuna. vísir/eyþór
Stjarnan vann Þór Ak., 92-84, í 7. umferð Domino's deild karla í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Stjörnumanna í fimm leikjum.Þórsarar voru yfir nær allan tímann en leikur þeirra hrundi eftir að Marques Oliver fékk sína fimmtu villu í upphafi 4. leikhluta.Þór byrjaði leikinn miklu betur og var með frumkvæðið fyrstu þrjá leikhlutana.Staðan var 61-72, Þór í vil, þegar Oliver fór af velli. Án hans lentu gestirnir í miklum vandræðum á báðum endum vallarins.Heimamenn sýndu styrk, unnu muninn upp og náðu tangarhaldi á leiknum. Þeir unnu á endanum átta stiga sigur, 92-84. Þetta var þriðja tap Þórs í röð.Af hverju vann Stjarnan?

Lengi vel stefndi allt í fimmta tap Stjörnunnar í röð. Þór byrjaði leikinn í svæðisvörn sem sló Stjörnumenn út af laginu. Þeir hittu skelfilega og

Þórsarar byggðu upp ágætis forskot.Gestirnir voru í fínum málum, allt þar til Oliver fór af velli. Þá gengu Stjörnumenn á lagið, náðu yfirhöndinni í frákastabaráttunni og Róbert Sigurðsson leiddi þá áfram í sókninni.Garðbæingar rústuðu 4. leikhlutanum, 31-15, og unnu á endanum átta stiga sigur, 92-84.Hverjir stóðu upp úr?

Hlynur Bæringsson fór fyrir sínum mönnum með 15 stigum, 17 fráköstum og sex stoðsendingum. Róbert og Collin Pryor voru rólegir framan af en spiluðu vel í 4. leikhluta. Róbert endaði með 19 stig og Pryor var með 21 stig og 19 fráköst. Þá komu Marvin Valdimarsson og Eysteinn Bjarni Ævarsson með gott framlag af bekknum.Oliver skoraði 12 stig og tók 18 fráköst á meðan hans naut við hjá Þór. Ingvi Rafn Ingvarsson heldur áfram að gera það gott og Sindri Davíðsson átti fína spretti.Hvað gekk illa?

Garðbæingar vörðu körfuna afar illa framan af leik og gestirnir áttu auðvelt með að komast inn í miðjuna. Þór skaut 40 vítaskotum í leiknum en hitti aðeins úr 25 þeirra. Vítanýting Stjörnunnar var enn verri (55%).Þórsarar lentu í miklum vandræðum með að skora eftir að Oliver fékk fimmtu villuna. Sóknarvopnin voru ekki nægilega mörg eða öflug.Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga einn leik eftir áður en landsleikjahléið skellur á. Stjörnumenn fara til Grindavíkur og mæta þar heimamönnum.Þórsarar fá hins vegar ÍR-inga í heimsókn og vonast eftir þriðja heimasigrinum í vetur.

Hrafn: Fengum fullt af skotum á móti svæðisvörninni

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ánægður eftir mikilvægan sigur á Þór Ak. í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Stjörnumenn tapað fjórum leikjum í röð.„Þakklæti. Við þurftum þennan sigur sama hvernig hann kæmi. Þegar lið missa leiki, tvö töp í framlengingu og þannig; mér leið eins og við værum að spila gegn sjálfum okkur,“ sagði Hrafn eftir leik.„Auðvitað hjálpaði það okkur mikið að [Marques] Oliver fór út af en mér leið eins og það skipti engu máli hverjir væru inn á. Þetta hefði alltaf orðið svolítið þungt. En við tókum sigur og byggjum á því.“Stjarnan var undir nær allan tímann en seig fram úr á lokasprettinum og endaði á því að vinna átta stiga sigur.„Auðvitað eru hlutir sem hægt er að byggja á. Málið er að við fengum alveg skot en það er bara erfitt að ná sér af því að vera 1/17 í skotum áður en þú skorar aðra körfuna. Það voru opin skot og sniðsskot. Ég veit ekki hvað við brenndum af mörgum sniðsskotum en veit að það endist ekki í gegnum heilt tímabil,“ sagði Hrafn.Hann viðurkennir að svæðisvörnin sem Þór byrjaði leikinn í hafi komið sér á óvart.„Já, þannig lagað. Mér fannst við fá fullt af skotum á móti svæðisvörninni en þau fóru ekki ofan í. Þá bjuggum við okkur strax til leik sem var okkur þungur,“ sagði Hrafn sem fer með sína menn til Grindavíkur í næstu umferð.„Eins ótrúlegt og það er líður þessi liði þannig að það eigi að geta gefið öllum liðum í deildinni leik. Það hefur bara verið auðvelt að slá okkur út af laginu. En við komum til baka í þessum leik, vorum flottir í 4. leikhluta og byggjum á því.“

Hjalti: Ekkert að frétta í sókninni síðustu fimm mínúturnar

Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Þórs Ak., sagði að sínir menn hefðu átt að landa sigri gegn Stjörnunni, þrátt fyrir að hafa misst Marques Oliver af velli með fimmur villur í upphafi 4. leikhluta.„Ég vil meina að við höfum ekki náð í sigurinn. Við vorum 10-12 stigum yfir en sækjum ekki sigurinn. Það var ekkert að frétta í sókninni síðustu fimm mínúturnar. Það er það sem fellir okkur. Auðvitað hefði Marques hjálpað okkur helling. Hann er okkar helsti póstur og tekur mikið af fráköstum,“ sagði Hjalti eftir leik.Þórsarar voru með yfirhöndina lengst af, eða allt þar til Oliver fór af velli.„Við lögðum okkur fram og ætluðum að ná í sigurinn. En við lærum helling. Við þurfum að ná í þessa sigra,“ sagði Hjalti.Honum fannst svæðisvörnin sem Þór byrjaði leikinn í gefa góða raun.„Við vissum að sjálfstraustið hjá Stjörnunni væri ekkert rosalega mikið. Við byrjuðum í 3-2 svæðisvörn og ég held að það hafi ruggað bátnum hjá þeim,“ sagði Hjalti.„Við réðumst á körfuna, gerðum þetta saman og það var gleði og gaman. Við lifðum á því,“ sagði Hjalti ennfremur.Þrátt fyrir þrjú töp í röð er engan bilbug að finna á Hjalta.„Við förum í alla leiki til að leggja okkur fram og gera okkar besta til að ná í sigur. Við eigum ÍR næst heima og við getum unnið alla þar,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.