Viðskipti innlent

Hlutabréf Haga hríðfalla eftir uppgjör

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hagnaður Haga á fyrri helmingi rekstrarársins dróst saman um 30 prósent á milli ára.
Hagnaður Haga á fyrri helmingi rekstrarársins dróst saman um 30 prósent á milli ára. Vísir/Valli
Hagnaðar smásölufélagsins Haga nam 1.532 milljónum króna á fyrri helmingi rekstrarárs félagsins, frá mars til ágúst, og dróst saman um tæplega 30 prósent á milli ára. Hagnaðurinn var 2.161 milljón króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins sem birt var síðdegis í gær.

Hlutabréf í félaginu hríðféllu um allt að níu prósent í verði þegar markaðir opnuðu í morgun. Lækkunin hefur hins vegar gengið að hluta til baka og þegar þetta er skrifað stendur gengi bréfa Haga í 34,25 krónum á hlut hafa þau lækkað í verði um liðlega 5,7 prósent í nærri 500 milljóna króna viðskiptum. 

Vörusala Haga á tímabilinu nam 37.169 milljónum króna, samanborið við 40.712 milljónir króna á sama tíma árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins er 4,9 prósent, ef frá er talin aflögð starfsemi. Sölusamdráttur félagsins á tímabilinu í heild er 8,7 prósent í krónum talið.

Aflögð starfsemi er verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf Glæsibæ, matvöruhluti Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir í Smáralind og Kringlu.

Í matvöru­verslanahluta samstæðunnar er sölusamdráttur í krónum 7,1 prósent en magnminnkun 3,0 prósent. Ef tekið er tillit til aflagðrar starfsemi er sölusamdráttur matvöruverslanahlutans 4,8 prósent en magnminnkun 1,9 prósent. Viðskiptavinum hefur fjölgað á tímabilinu um 0,5 prósent í matvöruverslanahlutanum en að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi hefur viðskiptavinum fjölgað um 3,7 prósent.

Hærra kostnaðarhlutfall

Framlegð Haga var 9.197 milljónir króna á tímabilinu, samanborið við 10.035 milljónir króna árið áður, eða 24,7 prósenta framlegð samanborið við 24,6 prósenta á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 42 milljónir króna milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,1 prósent í 18,6 prósent. Launakostnaður hefur hækkað um 6,5 prósent milli ára en annar rekstrarkostnaður hefur lækkað um 8,9 prósent. Hækkun launakostnaðar má að mestu rekja til kjarasamningshækkana, þenslu á vinnumarkaði, auk þess sem launakostnaður hefur hækkað tímabundið vegna framkvæmda og lokunar verslana, að því er segir í tilkynningunni.

EBITDA dróst verulega saman

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 2.378 milljónum króna, samanborið við 3.180 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 6,4 prósent, samanborið við 7,8 prósent árið áður.

Áhrif aflagðrar starfsemi, tímabundinnar lokunar vegna breytinga hjá félaginu og einskiptiskostnaðar vegna þess er um 200-250 milljónir króna á EBITDA tímabilsins. Þá eru áhrif verðhjöðnunar, styrkingu krónunnar og breytts samkeppnisumhverfis um 550-600 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×