Viðskipti innlent

Hagnaður Símans minnkar um 20 prósent á þriðja fjórðungi

Hörður Ægisson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að rekstur Símasamstæðunnar hafi gengið vel á árinu og í samræmi við væntingar.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að rekstur Símasamstæðunnar hafi gengið vel á árinu og í samræmi við væntingar.
Hagnaður Símans á þriðja ársfjórðungi 2017 nam 905 milljónum króna samanborið við 1.128 milljónir á sama tímabili árið áður. Þá námu tekjur félagsins tæplega 7 milljörðum króna á fjórðungnum og drógust saman um liðlega 300 milljónir á milli ára.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Símanum en sé hins vegar litið til fyrstu níu mánaða ársins jókst hagnaður félagsins um tæplega fimmtán prósent og var samtals 2.469 milljónir.

Þá var rekstrarhagnaður Símans fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) 2.387 milljónir á þriðja fjórðungi borið saman við 2.583 milljónir á sama tíma árið 2016. EBITDA-hlutfall félagsins lækkar lítillega á milli ára og var 34,3 prósent í lok september á þessu ári.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningu að rekstur Símasamstæðunnar hafi gengið vel á árinu og í samræmi við væntingar. „EBITDA er rúmum hálfum milljarði hærri en fyrstu níu mánuðina í fyrra, þrátt fyrir samdrátt í reiki og verðlækkanir í smásölu. Viðskiptavinum með farsíma hefur fjölgað og kynntar hafa verið nýjungar sem lofa góðu inn í framtíðina.“

Þá segir Orri að samstæðan njóti afraksturs mikilla fjárfestinga í innviðum undanfarin misseri sem muni nýtast viðskiptavinum og hluthöfum til framtíðar.

„Fjárfestingar hafa náð hámarki og í kjölfarið mun sterkt fjárflæði frá rekstri samstæðunnar hægt og rólega nýtast beint til aukinnar fjármunamyndunar.

Efnahagsreikningurinn var einfaldaður í upphafi fjórðungsins með endurskipulagningu skulda og handbærs fjár. Samstæðan er nú með sveigjanlegri rekstur og efnahag en fyrr og þannig vel í stakk búin til að bregðast við samkeppni og nýta tækifæri til sóknar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×