Viðskipti innlent

VÍS tapar 278 milljónum króna

Hörður Ægisson skrifar
Tap VÍS á þriðja fjórðungi skýrist af neikvæðri afkomu af fjárfestingarstarfsemi félagsins.
Tap VÍS á þriðja fjórðungi skýrist af neikvæðri afkomu af fjárfestingarstarfsemi félagsins. vísir/anton brink
Tryggingafélagið VÍS tapaði 278 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við hagnað upp á 354 milljónir á sama tímabili 2016. Það skýrist af neikvæðri afkomu af fjárfestingastarfsemi félagsins sem helgast einkum af óhagstæðri þróun á innlendum hlutabréfamörkuðum.

Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá VÍS en þar segir einnig að félagið hafi gjaldfært hjá sér 112 milljónir í kostnað vegna skipulagsbreytinga sem tilkynnt var um í síðasta mánuði. Fólust þær meðal annars í að framkvæmdastjórum var fækkað úr 6 í 4 og stjórnendum úr 33 í 26.

Tekjur af iðgjöldum VÍS hækkuðu um tæplega 12 prósent á milli ára og námu samtals 5.350 milljónum á þriðja fjórðungi. Samsetta hlutfallið batnaði einnig á sama tíma og var 94,6 prósent borið saman við 97,2 prósent á sama tímabili fyrir ári.

Sé litið til afkomu VÍS á fyrstu níu mánuðum ársins þá jókst hagnaður félagsins um liðlega 240 milljónir og var 829 milljónir. Hins vegar jókst að sama skapi tap af fjárfestingastarfsemi nokkuð á milli ára og var tæplega 500 milljónir á tímabilinu.

Í tilkynningu er haft eftir Helga Bjarnasyni, forstjóra VÍS, að þriðji fjórðungur félagsins hafi verið kaflaskiptur.

„Við erum annars vegar að sjá áframhald á jákvæðri þróun í afkomu af vátryggingarekstri og samsett hlutfall upp á 95,1% það sem af er ári. Afkoman af fjárfestingastarfseminni er hins vegar óviðunandi, sem skýrist aðallega af óhagstæðri þróun á hlutabréfamarkaði. Nýlega réðumst við í umfangsmiklar skipulagsbreytingar með það að leiðarljósi að einfalda okkar rekstur og gera okkur enn betur í stakk búin til að veita viðskiptavinum bestu þjónustu sem völ er á. Við sjáum mikil tækifæri í stafrænum lausnum og endurspegla breytingar í skipuriti m.a. þær áherslur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×