Skoðun

Meira af því sama eða eitthvað nýtt?

Starri Reynisson skrifar

Stöðugleiki er eitt ofnotaðasta orð í íslenskum stjórnmálum. Svo ofnotað að það er nánast orðið merkingarlaust. Því hefur að miklu leiti verið rænt af stjórnmálamönnum sem stuðla að þveröfugri þróun í samfélaginu, þ.e. sundrungu og óstöðugleika jafnt efnahagslegum og pólitískum. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í pólitíska óstöðugleikann, það er nóg að skoða samsetningu þeirra þriggja ríkisstjórna sem hafa sprungið á síðustu tíu árum til að komast að rót hans. Ég ætla hins vegar að ræða aðeins um efnahagslegan stöðugleika.

Þeir stjórnmálamenn sem tala hvað mest og hæst um mikilvægi efnahagslegs stöðugleika eru jafnframt dyggir stuðningsmenn íslensku krónunnar. Þetta tvennt fer ekki saman. Að halda úti óstöðugri örmynt sem kostar skattgreiðendur milljarða á ári hefur þveröfug áhrif. Íslenska krónan étur upp launhækkanir nánast jafnóðum og kemur þannig í veg fyrir flesta möguleika á raunverulegum kjarabótum. Hún kemur í veg fyrir að hægt sé að koma á eðlilegu vaxtastigi á lánamarkaði og er grunnorsök þess að við erum með hina margumræddu verðtryggingu. Svo gerir hún líka ferðaþjónustunni og útflutningsgreinunum ákaflega erfitt fyrir. Íslenska krónan er einn helsti óvinur efnahagslegs stöðugleika á Íslandi og þar af leiðandi eru hennar stuðningsmenn það líka.

Það er morgunljóst að ef við ætlum okkur að byggja upp blómlegt samfélag þar sem efnahagslegur stöðugleiki endist, þá verðum við að henda krónunni í ruslið og taka upp annan gjaldmiðil. Nærtækasta lausnin væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.

Enn eina ferðina höfum við val um hvaða stefnu við viljum taka sem samfélag. Í þetta skipti skulum við hafna þeim sem vilja viðhalda sundrungu og óstöðugleika í samfélaginu og gefa einhverju öðru raunverulegan séns. Meira af því sama þýðir meira af því sama, verum hugrökk og prófum eitthvað nýtt.

Starri Reynisson

Höfundur er í 3. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×