Körfubolti

Segja að Brynjar hafi hrakið stúlkur úr Stjörnunni með þjálfunaraðferðum sínum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brynjar Karl Sigurðsson.
Brynjar Karl Sigurðsson. vísir/stefán
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar sendi frá sér ítarlega yfirlýsingu í dag vegna þjálfarans, Brynjars Karl Sigurðssonar.

Ástæðan fyrir yfirlýsingunni er sú að Brynjar hefur tjáð sig á samfélagsmiðlum um ástæður þess að hann hætti sem þjálfari í barna- og unglingastarfi Stjörnunnar. Körfuknattleiksdeildin telur sig þurfa að svara því sem Brynjar hefur sett fram.

Í yfirlýsingunni er Brynjar sakaður um harkalegar þjálfunaraðferðir hjá níu og tíu ára stúlkum.

„Á þeim tíma sem Brynjar Karl þjálfaði hjá félaginu hraktist nokkur hópur stúlkna úr félaginu vegna þeirra aðferða sem einkenndu þjálfun hans. Svo virðist sem stúlkur sem eiga foreldra sem ekki voru í einu og öllu fylgjandi því, eða einfaldlega ekki í aðstöðu til, að setja körfuknattleiksiðkun 9-10 ára dóttur sinnar í forgang í fjölskyldulífinu hafi lent hvað verst í þjálfaranum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Því miður hafði þetta mikil áhrif á sumar stúlkurnar enda átti hann til að taka reiðilestur yfir einstökum stúlkum á æfingum fyrir framan aðra iðkendur. Við höfum undir höndum bréf frá foreldri sem er átakanlegt að lesa þar sem upplýst er um áhrif þjálfunaraðferða Brynjars á barnið.“

Síðar í yfirlýsingunni er greint frá því að á fundi í byrjun maí hafi verið ákveðið að framlengja ekki samningi við Brynjar sem rann út í júní. Stjarnan sakar svo Brynjar um að hafa farið að vinna fyrir annað félag á meðan hann var enn samningsbundinn Stjörnunni.

Stjörn körfuknattleiksdeildar biður svo iðkendur og foreldra innilega afsökunar á framferði þjálfarans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×