Skoðun
Erna Sif Arnardóttir, Erla Björnsdóttir og
Björg Þorleifsdóttir.

Í takt við tímann?

Erna Sif Arnardóttir, Erla Björnsdóttir og Björg Þorleifsdóttir. skrifar

Í tilefni þess að tímamótarannsóknir bandarískra vísindamanna á líkamsklukkunni hljóta Nóbelsverðlaun finnst okkur við hæfi að endurvekja umræðuna um ranga klukku á Íslandi og þá staðreynd að fjöldi Íslendinga býr við stöðugt misræmi milli eigin líkamsklukku og ytri klukku samfélagsins. Sívaxandi fjöldi rannsókna sýna að slíkt misræmi hefur áhrif á heilsu og líðan. Árið 1968 þegar ákveðið var á Alþingi að festa Ísland á sumartíma var þessi vitneskja um mikilvægi dægursveiflu í líkamsklukkunni ekki komin fram. Nú hafa vísindamenn hins vegar síðustu áratugi rannsakað tilgang líkamsklukkunnar og ný þekking sem skapast hefur undirstrikar mikilvægi þess að fólk lifi í takt við sína innri klukku. Er því ekki kominn tími til að leiðrétta þessa skekkju og stilla tímann rétt fyrir okkur hér á Íslandi og leyfa okkur þannig að vera í takt við tímann?

Misræmi staðarklukku og sólarklukku á Íslandi
Á Íslandi hefur misræmi á milli sólar- og staðarklukku verið viðvarandi síðan árið 1968, þegar miðtími (UTC, miðað við 0° lengdarbaug) var lögleiddur sem staðartími allt árið. Þessi ákvörðun hefur verið umdeild sérstaklega í ljósi þess að Ísland liggur á milli lengdarbauganna 13-24°V. Munurinn á eiginlegri sólarklukku og staðarklukkunni hér á landi er því á bilinu 52-88 mín (sbr. hádegi í Reykjavík er að jafnaði kl. 13:30). Vegna legu landsins á norðurhveli jarðar verða óheppilegar afleiðingar þessa misræmis mun meira áberandi að vetrarlagi en á sumrin. Þannig fækkar vetrarmorgnum þar sem birtu nýtur á fótaferðartíma verulega (um 5-6 vikur) frá því sem væri ef klukkan tæki mið af réttum sólargangi.

Mynd fengin af http://www.worldtravelserver.com/travel/en/iceland/reykjavik/gmt_0.html

Hvers vegna er morgunbirtan mikilvæg fyrir líðan okkar? 
Sólin er mikilvægasti þátturinn í stillingu líkamsklukkunnar og skiptir morgunbirtan þar mestu máli. Að auki hafa aðrir þættir í daglegu lífi fólks einnig áhrif á líkamsklukkuna. Þar á meðal er staðarklukkan sem félagsleg tilvera mannsins byggir að langmestu leyti á, þ.á.m. skóli og vinna. Þegar áhrif þessara tímamerkja eru borin saman kemur í ljós að sólarklukkan hefur mun meiri áhrif á líkamsklukkuna en staðarklukkan. Þess vegna er mikilvægt er að þeirri litlu morgunbirtu sem vetrardagar á norðlægum slóðum veita sé ekki seinkað og að hún nýtist að fullu sem merki fyrir líkamsklukkuna til að stilla sig eftir.

Stuttur svefn – merki um styrkleika og hreysti? Þvert á móti!
Af Íslendingum hefur lengi farið það orð, að svefnvenjur þeirra séu ólíkar venjum nágrannaþjóða, sérstaklega að þeir fari seinna að sofa. Þetta hefur verið staðfest í hérlendum rannsóknum, íslenskir unglingar fara seinna að sofa en jafnaldrar þeirra í Evrópu í samanburði við niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þeir þurfa þó að vakna á svipuðum tíma í skóla og afleiðingin er því væntanlega sú að svefn þeirra styttist. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að íslenskir unglingar sofa einungis um 6 klst að meðaltali á virkum dögum sem er langt undir viðmiðum fyrir þeirra aldurshóp.

Of stuttur svefn er vaxandi áhyggjuefni um nær allan heim og hafa sérfræðingar víða sent ákall til heilbrigðisyfirvalda um aðgerðir til varnar þessari þróun. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á heilsuspillandi áhrif þessa og má þar m.a. nefna tengsl of stutts svefns við offitu, fullorðinssykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, ónæmiskvilla og jafnvel dauðsföll. Ástæða fyrir styttingu svefnsins er margþætt, en raflýsing hefur þó haft mest áhrif og er talin hafa valdið því að svefninn hefur styst um allt að 1,5 klst. á síðastliðinni öld. Nútímatækni gerir svo einstaklingum kleift að vinna og njóta afþreyingar af öllu tagi hvenær sem er sólarhringsins. Þetta leiðir til þess að fólk hnikar til svefn- og hvíldartíma og styttir eftir hentugleika.

Tímamisræmi veldur klukkuþreytu
Tímamisræmið á Íslandi veldur áþekkum afleiðingum og flugþreyta (e. jetlag), þegar flogið er í austur yfir nokkur tímabelti, þar sem staðartími er annar á komustað en við brottför. Staðarklukkan er þá á undan líkamsklukkunni sem er enn stillt í samræmi við sólarklukku á brottfararstað. Venjulega tekur það aðeins nokkra daga að laga líkamsklukkuna að nýjum staðartíma. En þegar staðarklukkan er stöðugt á undan sólarklukkunni getur togstreita sú sem skapast vegna misræmisins orðið viðvarandi. Það ástand hefur verið kallað klukkuþreyta eða „social jetlag“. Klukkuþreyta er metin með því að bera saman hvenær einstaklingur fer að sofa og vaknar, annars vegar á virkum dögum og hins vegar á frídögum. Einstaklingur sem velur sér að fara mun seinna að sofa og vakna seinna á frídögum en þá daga sem þarf að vakna vegna vinnu og skóla er því líklega með klukkuþreyttu.

Dægurgerð er lýsandi fyrir kjörsvefntíma, þ.e hvenær sólarhringsins tilteknum einstaklingi hentar best að sofa. Sá sem hefur seinkaða dægurgerð fer seint að sofa og á erfitt með að vakna á morgnana (nátthrafn eða B-týpa) en sá sem hefur flýtta dægurgerð er kvöldsvæfur og fer snemma að sofa (morgunhani eða A-týpa). Þegar Íslendingar (1-30 ára) eru bornir saman við Mið-Evrópubúa, þar sem staðarklukka miðast við sólarklukkuna, kemur í ljós að þeir fyrrnefndu eru að jafnaði með 30-60 mín. seinni dægurgerð en jafnaldrar þeirra í Evrópu. Munurinn er mestur meðal unglinganna (14-19 ára), og munar þar allt að 1 klukkustund. 

Klukkuþreyta Íslendinga hefur verið skoðuð og þar kemur í ljós að meirihluti íslenskra unglinga er með klukkuþreytu sem jafngildir 2 klst. eða lengur og hjá 20-30% þessa aldurshóps er hún meira en 3 klst. (Björg Þorleifsdóttir, grein í handriti). Þetta jafngildir því að þegar vekjaraklukkan hringir kl. 7 að morgni vantar enn 2-3 klst. upp á að þessi ungmenni hafi fengið nægan endurnærandi svefn.

Afleiðingar seinkaðrar dægurgerðar og klukkuþreytu
Í fjölmörgum rannsóknum hefur verið sýnt fram á samband milli dægurgerðar og frammistöðu í skóla, þar sem nátthrafninn sýnir lakari námsárangur en morgunhaninn. Ennfremur hafa rannsóknir leitt í ljós að samband er á milli klukkuþreytu og aukinnar áhættu á offitu, þunglyndi og tóbaks- og áfengineyslu. 

Af framansögðu má sjá að íslensk ungmenni hafa mikla tilhneigingu til að hafa seinkaða líkamsklukku og falla í hóp nátthrafnanna. Þau lenda þannig í áhættuhópi bæði hvað varðar áfengis- og tóbaksneyslu, offitu auk þunglyndis. Námsárangur þeirra skerðist mögulega einnig af þessum sökum. Einnig má leiða líkur að því að brottfall úr framhaldsskóla skýrist að einhverju leyti af því að sumir einstaklingar ná einfaldlega ekki að vakna til þess að mæta í skólann og uppfylla þar með ekki mætingarskyldu þá sem skólar hafa. 

Einnig má leiða líkur að því að mikil notkun melatóníns sem svefnlyf fyrir börn á Íslandi sé a.m.k. að hluta til vegna skakkrar klukku, en melatónín er notað til að aðlaga líkamsklukkuna og hjálpa einstaklingum sem eiga erfitt með að sofna á réttum tíma að kvöldi til að ná nægum nætursvefni.

Með því að viðhalda sumartíma allt árið er ýtt undir það ástand sem lýst hefur verið hér að framan, þ.e. seinkun líkamsklukkunnar með tilheyrandi óæskilegum afleiðingum.

Lagafrumvarp frá nýrri ríkisstjórn?
Í tilefni af skoðun Hins íslenska svefnrannsóknafélags á málinu um seinkun klukkunnar vill félagið vekja athygli á markvissari leið að sama marki: þverpólitískt frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/1968 um tímareikning á Íslandi.

Efni frumvarpsins yrði einfalt. Núgildandi lög um tímareikning á Íslandi eru aðeins ein grein og hefur hún staðið óbreytt frá árinu 1968. Í stað „Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich.“ komi: Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring einni klukkustund á eftir samræmdum heimstíma (UTC-1). Gildistökugreinin gæti t.d. miðað við þann tíma þegar sól er hæst á lofti á Íslandi, við sumarsólstöður 21. júní 2018. 

Í tengslum við birtingu þessar greinar mun Hið íslenska svefnrannsóknarfélag senda fyrirspurn á alla stjórnmálaflokka sem nú eru í framboði og spyrja hvaða stefnu þeir hafa varðandi þetta mikilvæga lýðheilsumál, breytingar á staðarklukku á Íslandi. Svörin verða birt á síðu félagsins, svefnfelag.is

Fyrir hönd Hins íslenska svefnrannsóknafélags

Dr. Erna Sif Arnardóttir, formaður Hins íslenska svefnrannsóknafélags og forstöðunáttúrufræðingur við Svefndeild Landspítala.

Dr. Erla Björnsdóttir, varaformaður Hins íslenska svefnrannsóknafélags og sálfræðingur.

Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur og lektor við Háskóla Íslands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.