Skoðun

Leyndarmál

Ágúst Már Garðarsson skrifar
Hvíslað og flissað. Falið og geymt.

Ég ólst upp í landi, þetta var fallegt land sögðu margir, mér fannst það líka. Ég bjó í sveit og átti hund sem hét Depill sem fylgdi mér hvert fótmál, ég naut Esjunnar og fjörunnar. Dýralífsins og meira að segja rigningarinnar og roksins.

En það var eitthvað að, eitthvað bilað í þjóðarsálinni sem ekki var hægt að snerta á, hvort heldur sem var af ótta við sannleikann eða af hreinni meðvirkni. Þegar ég er jákvæður(sem er oftast) trúi ég að fólk hafi einfaldlega verið of hrætt við að hleypa þessari óværu upp á yfirborðið. Og get skilið það að vissu marki.

Þessi óværa er ástæðan fyrir að við kjósum nú til Alþingis 28 október 2017, mér finnst það skipta máli og ég vil að við höldum því til haga.

Snemma byrjaði ég í barnaskóla, þar var kennari sem beitti börn harðræði og suma ofbeldi, ég var heppinn, ég átti rauðhærðan vin sem kennarinn einbeitti kröftum sínum að en við áttum okkar augnablik. Ég var snemma kynþroska og það var altalað og þótti frekar fyndið, mér fannst það ekkert voðalega fyndið sjálfum. En eitt skiptið voru strákarnir gripnir við að kíkja á stelpurnar í sturtuklefunum í sundi, aldrei þessu vant var ég ekki með í þeim frumstæða og spennandi leik. Þessum tiltekna kennara þótti það hæfileg refsing að leyfa stúlkunum að klæðast og draga mig svo allsberan fyrir framan þær og allir hlógu og öskruðu….nema ég. Ég mun aldrei gleyma þessu augnabliki.

Ég ætla að stoppa aðeins hérna, það fór alveg mikið fyrir mér sem krakka og það mátti fyllilega aga mig oft á tíðum og ég er ekkert að kvarta yfir stanslausu harðræði, það voru aðrir en ég sem fengu þá útreið.

Að segja foreldrum sínum var vita vonlaust mál, maðurinn var í Björgunarsveitinni, Slökkviliðinu og mikils metinn í sveitinni fyrir mikið og gott félagsstarf, allar slíkar umkvartanir voru kveðnar niður. Ég álasa ekki foreldrum mínum fyrir það í dag. Ég veit að þau einfaldlega vissu ekki betur og gátu ekki trúað þessu.

Svo skipti ég um skóla, flutti í borgina, í yndislegan lítinn skóla þarsem mér var vel tekið, þar var líka svona kennari. Fullur af heift og einhverjum algerlega misskildum töffaraskap.

Svo fór ég allof ungur að fikra mig inn í heim sem fæstir kynnast hér á landi en það var félagsskapur ungra og upprennandi glæpamanna og fíkla á íslandi. Ég var aldrei neitt sérstakur ribbaldi, ég kannski klúðraði Metaljakkanum mínum með Iron Maiden bakinu með því að fara í  franska blússu og rósóttar gallabuxur við.  En ég reyndi. Ég átti staðalbúnað upptökuheimiladrengjanna sem var Bötterflæ hnífur, Hermannaskór með stáltá(reyndar einhverja glataða sort úr sölu varnarliðseigna) Zippo kveikjara og alltaf nóg kveikjarabensín.

Það skrítna sem mér hefur verið umhugað nú síðustu mánuði að þarna, um það bil árið 1989, árið sem bjórinn var leyfður er ég kominn í unglingapartý og einsog oft er með betri unglingapartýin eru þar eldri krakkar sem kynna okkur hin yngri fyrir allskonar sniðugu. Einskonar jafningjafræðsla. En það er mér ekki umhugað heldur að þarna árið 1989 var kominn kall sem var bara kallaður Leðurlögfræðingurinn og stelpurnar(sem flestar voru á aldrinum 12-17 ára) áttu að passa sig sérstaklega á honum. 1989!! Það eru 28 ár síðan. Og það var bara farið með þetta einsog þetta væri eitthvað sniðugt, að svona gamlir graðir kallar bara réðu ekkert við sig og þessvegna þyrftu fórnarlömb þeirra að gera viðeigandi ráðstafanir. Seinna eignaðist ég kærustu í Hvassaleitisskóla, þá var flippið hvort að maður myndi lenda í Hvassaleitisperranum, sem var einhver maður sem var alltaf í frakka á gagnstígnum bakvið Hvassó að flassa krakka sem gengu framhjá. Þótti bara dáldið sniðugt, þetta hefur breyst sem er gott, svo gott.

En það hræðilega var að á þessum tíma höfðu þessar stúlkur enga rödd, svona var þetta bara og þær gátu bara passað sig að klæða sig öðruvísi eða vera ekki á vitlausum stöðum með vitlausum mönnum. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum sem ég hef orðið vitni að í gegnum tíðina, þetta hefur bara sótt á mig nú þegar þetta mál kom upp.

Allt í einu í dag er að verða breyting, en hún var ekki sársaukalaus. Hún felldi ríkisstjórn. Hún rauf traust milli manna. Hún hleypti sannleikanum upp með öllum sínum viðbjóði en um leið öllum sínum ótrúlega lækningarmætti. Við í Bjartri Framtíð hvorki störtuðum þessum ferli né munum ljúka honum. En við höfum sýnt að á þeim augnablikum þegar við komumst að sannleikanum, þegar við horfum ískalt á tilraunir gamla íslands til að þagga þessi mál niður á öllum stigum, þá stöndum við í lappirnar og bregðumst við á þeirri einföldu tilfinningu að það er rétt. Taka skal fram að ekkert af þessu hefði gerst ef ekki væri fyrir mátt samfélagsmiðla, Höfum Hátt, radda þolendanna og ekki síst hetjulegs framgang Bergs Þórs Ingólfssonar sem gafst aldrei upp. Án þessara radda væri líklega bara allt ósköp svipað og við værum engu nær um málavöxtur. Þrýstingur á stjórnvöld virkar og er heilbrigður til að knýja fram breytingar. Þar er mikilvægt að ný stjórnarskrá fari að komast í gagnið svo skýrari og skilmerkilegri leiðir séu til að hafa áhrif á framvindu mála. En einnig þurfum við að taka allan málaflokkinn til endurskoðunar, það er einfalt viðbragð að þyngja refsingar og hrópa hátt en við verðum að taka á þessum sjúkleika með heilstæðu og samstæðu átaki sem þjóð og þar þarf löggjafarvaldið að fara vel ofaní hlutina. Hafa verður með alla helstu sérfræðinga og rannsóknir til hliðsjónar og alltaf verður að hugsa um hag þolendanna í þessum málum.

Ég er 42ja ára íslendingur sem sé þjóð í miklu þroska og þróunarferli sem mig langar að taka virkann þátt í, þessvegna býð ég mig fram til Alþingis í komandi kosningum fyrir Bjarta Framtíð. Ég kýs að gera það fyrir frjálslyndan, umhverfisvænan flokk sem leggur áherslu á sterkar konur í valdastöðum og frið, mannréttindi og náungakærleika að leiðarljósi. Flokk sem tekur allskonar umræður og styður sérstaklega við vandaðri vinnubrögð og ferla, sér tækifæri í sjálfvirkninvæðingu atvinnuveganna og mátt menntunar og tækni í nýjum heimi en er tilbúinn að láta tilfinningar stundum ráða för.

Höfundur er matreiðslumaður Marel og frambjóðandi Bjartrar framtíðar í 4. sæti í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×