Skoðun

Pólitískur styrkur

Björt Ólafsdóttir skrifar
Björt framtíð varð til árið 2012 þegar fjölbreyttur hópur fólks með sömu hugsjónir tók höndum saman um að setja mark sitt á að breyta stjórnmálum á Íslandi. Við vildum gera umbætur á íhaldssömu og stöðnuðu stjórnmálakerfinu, auka samráð og vinna að málum á faglegri og gagnsærri máta. Við vildum axla ábyrgð, ekki bara gagnrýna, heldur taka þátt og framkvæma.

Það þurfti því ekki koma neinum á óvart að Björt framtíð skyldi sýna ábyrgð eftir að önnur stjórnarmyndun var tvívegis fullreynd og ákveða að taka þátt í ríkisstjórn með það að markmiði að vinna að breytingum innan frá.

Annað grunngildi okkar í Bjartri framtíð er traust. Það er undirstaða góðs samstarfs og hluti af því að vera lýðræðisafl að bera traust til annarra.

Þetta grunngildi og reyndar mörg önnur voru því miður þverbrotin í síðustu viku þegar upp komst að tveir ráð­herrar Sjálfstæðisflokksins höfðu tekið eig­in­hags­muni Sjálfstæðisflokksins fram yfir almanna­hag. Siðferði og samskiptareglur manna á milli í trúnaðarstörfum fyrir heila þjóð snúast ekki um lögfræði eða þær reglur sem þar er að finna um trúnað.

Traust er undirstaðan. Traust er tilfinning um að allt sé í lagi og óhætt sé að halda áfram. Það hvarf þegar við urðum þess áskynja að neitun ráðuneytis um að veita lögbundna upplýsingagjöf til bæði fjölmiðla og fjölskyldu brotaþola í máli um uppreist æru gat stafað af leyndarhyggju vegna álíka máls er kom illa við Sjálfstæðisflokkinn. Þá er ekki gott að halda áfram.

Þannig öxluðum við ábyrgð á ný átta mánuðum síðar og sögðum okkur frá ríkisstjórnarsamstarfinu. Það þarf staðfestu og hugrekki til að ganga frá góðum verkefnum sem við hefðum helst af öllu viljað halda áfram með. Gott siðferði þarf hins vegar að vera ofar öllu – þess vegna stendur Björt framtíð á styrkum stoðum. Okkar kjarni er styrkari en 100 ára gömul stjórnmálastofnun getur státað af.

Höfundur er umhverfisráðherra


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.