Körfubolti

Hlynur brosti bara eftir móttökurnar frá Thanasis sem enduðu meðal bestu tilþrifa dagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Ernir
FIBA er búið að velja fimm flottustu tilþrifin frá fyrsta deginum á Eurobasket í ár en keppni hófst í riðlinum í Helsinki í Finnlandi og Tel Aviv í Ísrael í gær.

Íslensku strákarnir léku sinn fyrsta leik á móti Grikkjum en urðu að sætta sig við 29 stiga tap, 61-90. Grikkir nýttu sér öll mistök íslensku strákanna og fengu alltof margar auðveldar körfur í leiknum.

Innkoma Thanasis Antetokounmpo, bróðurs NBA-stjörnunnar Giannis Antetokounmpo, vakti athygli en hann var með 9 stig, 4 fráköst, 2 stolna bolta og 2 varin skot á tæpum fimmtán mínútum.

Það var þó sérstaklega annað varða skotið hans sem er eftirminnilegt og það komst líka í hóp fimm flottustu tilþrifa fyrsta dagsins.

Viðbrögð Hlyns voru líka sérstök. Eftir að Thanasis Antetokounmpo hafði varið skotið hans með tilþrifum, enda nánast á næstu hæð fyrir ofan landsliðsfyrirliðann, þá gat okkar maður ekkert annað en brosað. Það gerðist heldur ekkert skelfilegt. Ísland fékk innkastið og aðra sókn.

Það má hinsvegar sjá fimm flottustu tilþrifin í myndbandi frá FIBA hér fyrir neðan en þar koma við sögu auk Thanasis Antetokounmpo þeir Tornike Shengelia frá Georgíu, Johannes Voigtmann frá Þýskalandi, Anthony Randolph frá Slóveníu og Finninn Jamar Wilson.

Bestu tilþrifin voru einmitt sigurkarfa Jamar Wilson í framlengingu á móti Frökkum í lokaleik dagsins í riðili Íslands.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×