Skoðun

Hættum að mismuna fólki með geðsjúkdóma!

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifar
Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september næstkomandi. Dagurinn er mikilvæg áminning þess að róa þarf öllum árum að því að taka á rótum þessa alvarlega vanda. Að mínu mati er hluti vandans úrelt lagaumhverfi sem mismunar fólki með geðsjúkdóma og dregur mögulega úr vilja þeirra til þess að leita sér aðstoðar.

Þrátt fyrir ítrekaðar átölur Evrópunefndar gegn pyntingum (CPT nefndin) gagnvart íslenskum yfirvöldum er fólki með geðsjúkdóma enn mismunað í lögum landsins á margvíslegan hátt. Lögræðislög heimila t.d. nauðungarvistun einstaklinga á þeim grunni að: „[…] hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé […].“ CPT nefndin hefur réttilega bent á, að það að einstaklingur sé metinn með geðsjúkdóm er ekki lögmæt ástæða til frelsissviptingar.

Þá veita lögræðislögin allt of rúmar heimildir til þvingaðrar meðferðar nauðungarvistaðra einstaklinga. Þó hefur CPT-nefndin ítrekað að slíkt lagaumhverfi auki hættuna á pyntingum og annarri vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð gagnvart nauðungarvistuðum. Eins sé ekki réttlætanlegt að skerða sjálfsákvörðunarrétt geðsjúkra um eigin meðferð með jafn rúmum hætti og raun ber vitni.

Þessi úr sér gengnu lög eru ekki til þess fallin að auka traust þeirra sem fyrir þeim verða vegna alvarlegra andlegra veikinda á réttarkerfinu. Þau lýsa því viðhorfi að fólk með andleg veikindi missi þar með sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama og lífi. Þau valda því eflaust að færri leita sér hjálpar við alvarlegum veikindum en ella vegna vantrausts á heilbrigðis- og réttarkerfinu.

Ótti við að missa sjálfsákvörðunarréttinn, að sæta frelsissviptingu og/eða þvingaðri meðferð að ósekju er raunsær og skiljanlegur í tilfelli geðsjúkra sem leita sér hjálpar. Fólk með geðsjúkdóma á að njóta sömu mannréttinda og aðrir en gera það ekki á Íslandi í dag. Það er óásættanlegt og má ekki standa í vegi fyrir því að fólk með geðsjúkdóma leiti sér hjálpar þegar á þarf að halda.

 

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×