Körfubolti

Haukur Helgi: Ætlum að vinna Pólland

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Helgi bar af í íslenska liðinu í dag.
Haukur Helgi bar af í íslenska liðinu í dag. vísir/ernir
Haukur Helgi Pálsson var besti leikmaður Íslands í tapinu fyrir Grikklandi, 61-90, í A-riðli Evrópumótsins í körfubolta í dag. Haukur skoraði 21 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

„Við hittum illa. Við hittum á rosalega lélegan skotdag. Mér fannst við fá skot en við settum þau bara ekki niður. Það þarf að breytast. Svo þurfum við að passa boltann og þá er þetta í flottum málum,“ sagði Haukur í samtali við Vísi eftir leikinn í Helsinki í dag.

Hann segir að það þýði ekki að svekkja sig um of á lokatölunum.

„Eftir fyrstu þrjá leikhlutana var munurinn að ég held 13 stig. Við fórum inn í 4. leikhluta vitandi að ef við kæmum þessu undir 10 stig þegar fimm mínútur voru eftir væri þetta leikur. En þeir voru mjög skilvirkir í að koma boltanum niður á blokkina og finna þaðan út hvernig þeir ættu að spila á móti okkar vörn,“ sagði Haukur.

„Þetta er fimm leikja mót og við þurfum eiginlega að gleyma þessum leik sem fyrst. Við eigum Pólland næst og það er leikur sem við ætlum að vinna. Við þurfum að mæta vel stemmdir til leiks og gera þetta fyrir áhorfendurna okkar.“

Haukur hikaði hvergi í leiknum í dag og spilaði af krafti.

„Ég ætla ekkert að hika á þessu móti. Það gengur ekkert á móti þessum liðum. Við þurfum að setja kassann út, skjóta okkar skotum og lifa og deyja með því,“ sagði Haukur að lokum.


Tengdar fréttir

Fjör í FanZone í Helsinki

Íslenskir stuðningsmenn körfuboltalandsliðsins komu saman í miðborg Helsinki og hituðu upp fyrir leikinn við Grikki. Arnar Björnsson og Björn Sigurðsson fönguðu stemninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×