Körfubolti

TAU Castelló bauð Ægi velkominn á íslensku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson.
Ægir Þór Steinarsson. Vísir/Andri Marinó

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Ægir Þór Steinarsson er búinn að finna sér lið á næsta tímabili en hann mun spila áfram í spænsku b-deildinni í körfubolta.

Ægir hefur samið við lið TAU Castelló en Ægir hjálpaði San Pablo Burgos að komast upp úr deildinni á nýloknu tímabili. Ægir var með 5,8 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik 2016-17.

Ægir er 26 ára leikstjórnandi sem er uppalinn í Fjölni þar sem hann steig sín fyrstu spor í meistaraflokki þegar hann var bara sautján ára gamall.

Ægir gekk frá sínum málum áður en hann flaug út með íslenska landsliðinu sem er að fara að taka þátt í æfingamóti í Rússlandi.

Mörg íslensk lið voru á eftir Ægi í sumar en hann ákvað að halda áfram í atvinnumennsku á Spáni þar sem hann hefur spilað undanfarin tímabil.

„Ægir er frábær leikmaður, leiðtogi inn á vellinum og getur stjórnað leikjum og flæðinu í þeim. Með hann innanborðs getum við spilað hraðan bolta en Ægir er sérstaklega hættulegur á opnum velli og öflugur einn á einn,“ sagði Antonio Ten, þjálfari TAU Castelló liðsins.

TAU Castelló endaði í fimmtánda sæti í spænsku b-deildinni á síðustu leiktíð og var tólf sætum á eftir San Pablo Burgos liðinu í vetur. Það er því mikið verk fyrir höndum ætli liðið að berjast um sæti í spænsku úrvalsdeildinni á komandi tímabili.

TAU Castelló verður þriðja liðið sem Ægir Þór spilar með í spænsku b-deildinni en vorið 2016 spilaði hann með Penas Huesca. Ægir lék einnig í tvö tímabil með Sundsvall Dragons. Þetta verður því fimmta tímabil hans í atvinnumennsku.

TAU Castelló bauð Ægi velkominn á íslensku á Twitter-síðu félagsins eins og sjá má hér fyrir neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.