Formúla 1

Lewis Hamilton á ráspól á heimavelli

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton kom út á toppnum í breytilegum aðstæðum á Silverstone brautinni.
Lewis Hamilton kom út á toppnum í breytilegum aðstæðum á Silverstone brautinni. Vísir/Getty
Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur í tímatökunni fyrir breska kappaksturinn sem fram fer á morgun. Kimi Raikkonen á Ferrari varð annar og Sebastian Vettel á Ferrari þriðji.

Hamilton getur þó ekki fagnað of innilega enn því hann er til rannsóknar hjá dómurum keppninnar fyrir að hafa mögulega svínað á Romain Grosjean í tímatökunni. Vísir mun fylgjast með því áfram.

Það fór að rigna rétt fyrir tímatökuna og ökumenn voru ekki sammála um hvort það væri ástæða til að nota regndekk eða ekki.

Valtteri Bottas á Mercedes og Daniel Ricciardo á Red Bull verða færðir aftur um fimm sæti hvor á ráslínu á morgun þeir þurftu báðir að skipta um gírkassa í bílum sínum.

Fernando Alonso var hins vegar með næstum allt nýtt í vélarsalnum í McLaren bílnum og hlaut 30 sæta refsingu fyrir vikið.

Fyrsta lota

Mismunandi skoðanir voru á hvort rigningin hefði vætt brautina nóg til að ástæða væri til fara út á milli regn dekkjum. Max Verstappen var fljótur að segja að þau væru réttu dekkin. Margir aðrir tóku áhættuna og fóru út á þurrdekkjum.

Daniel Ricciardo féll úr leik með vandamál sem hann greindi sem túrbínuvandamál. Tímatakan var stöðvuð tímabundið á meðan bíll Ricciardo var fjarlægður af brautinni. Ricciardo var fljótastur á þeim tíma sem bíllinn bilaði.

Brautin fór svo að þorna aðeins um miðja lotuna og tímarnir hrundu í kjölfarið. Esteban Ocon á Force India var fyrstur til að prófa þurrdekkin af alvöru, Alonso fylgdi í kjölfarið. Alonso endaði fljótastur í lotunni. Hann átti þó eftir að fá 30 sæta refsingu.

Þeir sem féllu út í fyrstu lotu voru; Ricciardo, Sauber ökumennirnir, Kevin Magnussen á Haas og Lance Stroll á Williams.

Stoffel Vandoorne vann Fernando Alonso í baráttu McLaren manna í dag.Vísir/Getty
Önnur lota

Allir fóru út á þurrdekkjum í annarri lotu. Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur í annarri lotu og Bottas annar. Ferrari menn voru svo í þriðja og fjórða sæti.

Stoffel Vandoorne á McLaren hafði betur í baráttunni við liðsfélaga sinn, Alonso í fyrsta sinn á árinu. Vandoorne var 10. og Alonso 13.

Þeir sem féllu úr leik í annarri lotu voru; Felipe Massa á Williams, Toro Rosso ökumennirnir, Alonso á McLaren og Jolyon Palmer á Renault.

Þriðja lota

Eftir fyrstu tilraunir allra ökumanna var Hamilton fljótastur með Vettel í öðru sæti og Bottas þriðja með Raikkonen fjórða. Lokaspretturinn hafði allt til að verða afar spennandi.

Hamilton hélt fyrsta sætinu á meðan Raikkonen á Ferrari stal öðru sætinu og Vettel varð þriðji.


Tengdar fréttir

Honda og Sauber skilja að borði og sæng fyrir giftingu

Honda og Sauber höfðu fyrir skömmu tilkynnt að til stæði að setja Honda vél um borð í Sauber bílinn strax á næsta ári. Nú virðist sem upp úr hafi slitnað með brotthvarfi Monisha Kaltenborn liðsstjóra Sauber, sem yfirgaf liðið fyrir Bakú kappaksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×