Viðskipti innlent

Segir uppsagnir hjá Icelandair skýrast af árstíðasveiflu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir uppsagnirnar ívið fleiri en í fyrra.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir uppsagnirnar ívið fleiri en í fyrra. Vísir/Anton Brink
Icelandair hefur sagt upp 115 flugmönnum og auk þess tilkynnt 70 flugstjórum að þeir verði færðir niður í stöðu flugmanns næsta vetur. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.

Vísir leitaði svara hjá Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa félagsins sem sagði uppsagnirnar vera hluta af reglulegri starfsemi Icelandair. Hann segir að flugmenn séu ráðnir inn á vorin sem síðan sé sagt upp á haustin.

„Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í því. Það helgast af því að það er miklu meira um að vera í fluginu og ferðaþjónustunni yfir sumarmánuðina en á veturna,“ segir Guðjón.

Hann segir ákvæði kjarasamninga flugmanna kveða á um að sá háttur sé hafður á að flugmenn séu fastráðnir inn á vorin en síðan sagt upp á haustin í stað þess að þeir séu ráðnir inn sem sumarstarfsmenn eins og við á um aðra starfsmenn félagsins eins og til dæmis flugþjóna og starfsfólk „á jörðinni.“

Guðjón segir þetta gerast ár eftir ár en að uppsagnirnar séu ívið fleiri núna heldur en fyrir ári. Aðspurður hvort það sé vegna minni vaxtar félagsins svarar Guðjón neitandi: „Nei, það hefur ekkert með það að gera. Þetta snýst bara um að hafa réttan fjölda starfsmanna.“

En hvers vegna var þá fleirum sagt upp störfum í ár en í fyrra? „Það var vegna þess að vöxturinn var mjög mikill á síðasta ári,“ svarar Guðjón upplýsingafulltrúi Icelandair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×