Viðskipti erlent

ESB sektar Google um 283 milljarða króna

Atli Ísleifsson skrifar
Google hefur níutíu daga til að breyta starfsháttum sínum.
Google hefur níutíu daga til að breyta starfsháttum sínum. Vísir/AFP
Evrópusambandið hefur sektað tölvurisann Google um 2,4 milljarða evra, um 283 milljarða króna, vegna brota á samkepnislögum.

Að dómi framkvæmdastjórnar ESB hefur tölvurisinn veitt eigin netverslun forgang umfram aðrar í leitarvél sinni.

Framkvæmdastjórn ESB hefur aldrei í sögunni sektað fyrirtæki um eins háa upphæð, en rannsókn ESB hófst fyrir sjö árum síðan.

Sambandið hefur jafnframt gert Google að breyta um starfshætti innan níutíu daga. Bregðist Google ekki við er hætta á að sektin verði enn hærri.

Þó að sektin sé sú hæsta í sögunni þá er hún langt frá þeirri hámarkssektarupphæð sem regluverk ESB kveður á um. Hámarkssektin sem ESB getur lagt á fyrirtæki er átta milljarðar evra, sem myndi samsvara tíu prósentum af heildartekjum Google.

Uppfært 10:14:

Í yfirlýsingu frá Google kemur fram að tölvurisinn íhugi nú að áfrýja málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×