Skoðun

Aðhald eða einkafjármagn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Samþykkt ríkisfjármálaáætlunar næstu fimm ára hvarf aðeins í umræðunni um fúsk stjórnarflokkanna við skipan dómara í Landsrétt. Nú hefur stjórnarmeirihlutinn samþykkt þá sýn sem hann hefur á samfélagið næstu fimm árin. Og sú sýn á lítið skylt við loforðin sem hljómuðu svo vel fyrir kosningar, ekki síst þegar kemur að heilbrigðismálum.

Það virðist raunar hafa farið fram hjá mörgum að bæði Vinstri græn og Samfylking gerðu tillögur um úrbætur á fjármálaáætluninni. Raunar stóð stjórnarandstaðan samhent að tillögu um að áætluninni yrði vísað aftur til ráðherra sem mundi vinna hana betur.

Tillögur okkar í Vinstri grænum gengu út á það að stækka rammana; að auka bæði við tekjur og útgjöld ríkisins. Það kom nefnilega nokkuð á óvart að Viðreisn, sem kenndi sig við kerfisbreytingar, og Björt framtíð, sem kenndi sig við baráttu gegn fúski, skyldu gera það að sínu helsta baráttumáli að standa vörð um skattkerfið sem Bjarni Benediktsson kom á í tíð sinni sem fjármálaráðherra og fjármálaáætlun sem var svo mikið fúsk að fjármálaráð gaf henni falleinkunn.

Sýn ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm árin er aðhald og hlutfallslegur samdráttur í samneyslunni þar sem öll útgjöld verða að rúmast innan hagsveiflunnar. Í staðinn fyrir að standa með þeirri stefnu, hafa ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans hins vegar beitt talnaleikfimi til að fegra stöðuna.

Vinstri græn telja hins vegar rétt að auka við samneysluna. Við viljum fara í þá uppbyggingu innviða sem allir voru sammála um fyrir kosningar og við erum óhrædd við að tala fyrir auknum tekjum ríkisins. Við viljum hins vegar beita skattkerfinu sem jöfnunartæki, þannig að þau sem best hafi það leggi meira til samfélagsins. Því miður varð aðhaldskrafa hægri aflanna ofan á, en þó læðist að manni sá grunur að ríkisstjórnin muni ekki þora annað en að fara í uppbyggingu. Það fé mun hins vegar koma frá einkaaðilum, þar sem fjármálaáætlunin setur útgjöldum ríkisins skýran ramma. Og þá munu stjórnarliðar fara í rökleikfimi við að útskýra að það sé nú ekki einkavæðing.

 

Höfundur er þingmaður VG.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×